Íslam
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Íslam (arabíska: الإسلام al-islām framburður.; þýðir undirgefni, í þessu tilviki, við Guð) eru eingyðistrúarbrögð af abrahamískum stofni. Þau eru næst fjölmennustu trúarbrögð heims á eftir Kristni. Fylgjendur íslams kallast múslimar.
Múslimar greinast í mörg trúfélög, þau langstærstu eru sjía-múslimar og súnní-múslimar. Sjá nánar grein um trúfélög múslima.
Bænahús múslima heita moskur.
Efnisyfirlit |
[breyta] Orðsifjar
Á arabísku kemur orðið Islām úr þriggja stafa rótinni S-L-M, sem hefur merkinguna „friðsamleg undirgefni; að gefa sig; að hlýða; friður“. Islām þýðir bókstaflega „undirgefni/hlýðni,“ það er að segja undirgefni við Guð.
Önnur arabísk orð sem eru dreginn af S-L-M rótinni:
- Salām, þýðir „friður“, og er algengt að heilsast með þessu ávarpi
- Muslim, fylgjandi íslam, þýðir sá sem „sýnir undirgefni“ eða „hlýðir“ Guði.
[breyta] Trú
Múslímar trúa því að Guð (á arabísku Allāh; einnig á arameísku Alaha) hafi opinberað boðskap sinn til manna fyrir Múhameð spámanni sem uppi var í Arabíu 570-632 (samkvæmt gregoríanska tímatalinu). Þeir trúa því einnig að aðrir spámenn Guðs, þar á meðal Adam, Nói, Abraham, Móses og Jesús (sem þeir kalla Isa) hafi fengið opinberanir frá honum. Múslímar trúa því að Múhameð sé síðasti og mesti spámaðurinn eða „innsiglið“. Opinberanir hans munu endast fram að Dómsdegi.
Aðalrit múslíma er Kóraninn en þeir trúa því að hann hafi verið skrifaður af Múhameð beint eftir Gabríel erkiengli samkvæmt boði Guðs. Kórarinn er samkvæmt múslímum óbrengluð orð Guðs (ólíkt Biblíu Kristinna manna, sem á að vera texti venjulegra manna innblásinn af Guði) og var opinberaður á arabísku. Mikið er lagt upp úr því í samfélögum múslima að fólk geti lesið (og helst talað) arabísku og þar með lesið Kóraninn á frummáli. Múslímar trúa því að hluti af guðspjöllunum, Torah og spádómabækur Gyðinga hafi, þrátt fyrir heilagan uppruna þeirra, verið vantúlkaðar og spjallaðar af manna völdum. Frá þessu sjónarhorni er Kóraninn leiðrétting á á heilögum ritum Gyðinga og kristinna manna og lokaopinberun.
Múslímar álíta að íslam sé í aðalatriðum sú sama trú sem aðrir spámenn og sendiboðar Guðs hafa opinberað mönnum allt frá Adam og Abraham. Kóraninn kallar Gyðinga og kristna (og það hugtak er einnig á stundum notað um aðra trúarflokka) „fólk bókarinnar“.
Grundvallartrúarjátningu íslam er að finna í šahādatān („tvær erfðaskrár“, á arabísku: لا إله إلا الله ومحمد رسول الله ): lā ilāhā illā-llāhu; muhammadur-rasūlu-llāhi— „Það er enginn guð nema Guð (Allāh); Múhameð er spámaður Guðs (Allah).“ Til að gerast múslimi verður að hafa þessa setningu yfir (á arabísku) og trúa henni í vitna viðurvist. Það er ekki hægt að neyða neinn til að gerast múslími, einungis sá sem virkilega óskar þess getur orðið það.
Fyrir utan Kóraninn eru frásagnirnar um gerðir og ummæli Múhameðs, sem nefndar eru hadith, mikilvægustu undirstoðir trúarskoðana og réttarkerfis múslima.
[breyta] Fimm stoðir íslam
Íslam hefur fimm stoðir, fimm grundvallaratriði trúarinnar. Staða þeirra er umdeild milli gerða íslam, en í öllum eru þær mikilvægar. Stoðirnar fimm eru:
- Shahādah (sjahada, trúarjátningin) – Yfirlýsing um að það sé enginn annar sem dýrka skuli en Guð og Múhammeð sé spámaður hans.
- Salat (salat, bænin) – Það að biðja skuli fimm sinnum á dag.
- Sawm (saúm, fastan) – Að sleppa því að borða, drekka og stunda kynlíf frá dögun til sólseturs í tunglmánuðinum Ramadan.
- Zakāt (sakat, ölmusa) – Ætlast er til þess að allir múslimar greiði fasta prósentu sem svo er útdeilt til fátækra.
- Hajj (hadsjí (pílagrímsferð) – Ætlast er til þess að allir múslimar, svo lengi sem fjárhagur og heilsa leyfi, fari til Mekka í það minnsta einu sinni um ævina.
Sumir halda því fram að sjötta stoðin sé óformlega til, en umdeilt er hver hún ætti þá að vera. Meðal annars er haldið fram að hún sé klausturmeðferð og munkadómur eða heilagt stríð. Þeir sem ekki eru sammála því að hún sé til telja margir að tilvist sjöttu stoðarinnar sé villutrú.
[breyta] Guð
Grundvallarhugmynd íslam er að Guð er einn og óskiptanlegur (á arabísku tawhid). Þessi eingyðistrú er bókstafleg og algjör. Guð er skapari heims, á jörðina og segir um hvaða lög skuli gilda (á arabísku sharía).
Guð er skilgreindur í Kóraninum, súru 112 á þennan hátt:
- Segðu „Hann er Guð, einn og sá eini. Allāh, hinn Eilífi, Allsherjar sjálfvaldur meistari. Hann getur engann og er ekki getinn, og enginn er líkur Honum.“ (Yusuf A. Ali).
Orðið Allāh er einnig notað um Guð af arabískumælandi Gyðingum og kristnum. Nafnið Allāh er einungis hægt að nota í eintölu og það hefur ekkert kyn. Múslímar hafna algjörlega hinni kristnu kenningu um „heilaga þrenningu“ (samfélag föður og sonar og heilags anda í einum guðdómi), þeir álíta hana jaðra við fjölgyðistrú. Í súru 4:171 segir:
- „Ó Fólk Bókarinnar, yfirstígið ekki takmörk trúar ykkar og segið ekki annað um GUÐ en sannleikan. Messías, Jesús, sonur Maríu var einungis spámaður GUÐS, og orðsending Hans sem Hann sendi Maríu, opinberun frá Honum. Þess vegna skulið þið trúa á GUÐ og spámenn Hans. Þér skulið ekki segja "Þrenning". Þér skuluð ekki gera það fyrir ykkar eigið besta. GUÐ er einn guð. Hafið Hann í hávegum, Hann er allt of hátignaður til að eignast son.“
Engar múslímskar myndir eru eða geta verið til af Guði þar sem þær mundu leiða til hjáguðadýrkunar, eðli Guðs gerir það einnig útilokað að skapa tví- eða þrívíða mynd af honum. Allar súrurnar, nema ein, hefjast á „Í nafni Guðs, hins náðuga, hins miskunnsama“ sem lýsir eðli hans ásamt þeim 99 nöfnum sem hann er nefndur í Kóraninum.
[breyta] Saga
Árið 610 fékk Múhameð (samkvæmt Múslimum) kall sitt sem spámaður í helli nokkrum stutt frá Mekka. Honum á þá að hafa verið falið það verkefni að skrifa niður textann sem í dag er kallaður Kóraninn og boða stranga eingyðistrú sem væri einskonar framhald á gyðingdómi og kristni. Hann fór fljótt að fá mikið af fylgismönnum. Þeir komu aðallega úr lægri stéttum samfélagsins, en Múhameð sjálfur var yfirstéttarmaður. Árið 622 voru Múhameð og allir fylgismenn hans neyddir til að flýja til borgarinnar Medína. Þar varð hann æðsti leiðtogi og stofnaði ríki sem á endanum náði einnig yfir Mekka og þegar Múhameð lést árið 632 náði veldi hans og þar með veldi íslam yfir alla Arabíu. Þegar hann lést tók tengdafaðir hans við völdum og næstu tveir kalífar (leiðtogar hins íslamska ríkis) voru einnig skyldmenni Múhameðs. Á þessum tíma stækkaði yfirráðasvæði íslamska ríkisins mjög mikið og varð að mjög stóru heimsveldi. Fjórði kalífinn var hins vegar tengdasonur Múhameðs, ‘Āli ibn Abī Ṭālib, og deilan um réttmæti valda hans eru undirrótin að skiptingu múslima í sjía og súnní. Sjía-múslimar trúa því að þeir sem á undan honum voru hafi verið ólögmætir vegna þess að Múhameð hafi nefnt hann sem eftirmann sinn á dánarbeði sínu, en súnníar eru ósammála þessu. Íslamska ríkið stóð ansi lengi. Það klofnaði niður, en hinir nýorðu múslimar Tyrkir náðu völdum yfir nokkurn veginn öllu landsvæðinu á elleftu öld og þeirra ríki lifir enn í dag, þó mun minna, sem Tyrkland. Nú til dags er íslam iðkað út um allan heim, fjölmennasta ríkið þar sem meirihluti íbúa eru múslimar er Indónesía. Fordómar gegn íslam hafa aukist á vesturlöndum á undanförnum árum í kjölfar þess að hryðjuverkahópum sem fremja hryðjuverk í nafni íslams hefur vaxið ásmegin.
[breyta] Tenglar
- Islam Online.net - Ein helsta vefsíðan um íslam.
- íslam í Evrópu
- síða um íslam gerð af íslenskum múslimum
- Islamic Network
- Listi yfir tengla tengdum íslam á dmoz.org
- Kóraninn á ensku með athugasemdum efasemdamanna