Kristni
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kristni er eingyðistrú af abrahamískum stofni. Upphafsmaður trúarbragðanna, og sá sem þau eru kennd við var Jesú frá Nasaret sem meðal kristinna manna er kallaður Jesús Kristur. Byggjast þau á boðskap hans og trúnni á að hann hafi verið sonur Guðs og risið upp frá dauðum, svo að þeir sem á hann trúi öðlist eilíft líf. Um hann má lesa í Nýja testamentinu, sem er síðari hluti Biblíunnar, trúarrits kristinna manna.
Kristni er fjölmennustu trúarbrögð heimsins í dag, einkum og sér í lagi á vesturlöndum og er hún þess vegna oftast talin ein af meginstoðum vestrænnar menningar.
Efnisyfirlit |
[breyta] Saga
Kristni byrjaði fyrir botni Miðjarðarhafs, þaðan sem Jesús var, en fljótlega færðist þungamiðja trúarbragðanna til Rómar, sem var á þeim tíma langöflugasta miðstöð menningar við Miðjarðarhafið. Til að byrja með voru kristnir fáir og litið niður á þá, á tímabili voru þeir jafnvel ofsóttir. En árið 313 lögleiddi Konstantínus keisari Kristni og hætti ofsóknum í Róm þar með. Um hundrað árum síðar tók Kristni einnig að eflast í Persíu og er sú kirkja, sem þar varð til, hin sanna Austur-kirkja, enn til í dag, þó að ekki fari mjög mikið fyrir henni. Til að byrja með var lítil miðstjórn meðal kristinna. Keisarinn var yfir kirkjunni, en það var aðeins að nafninu til. Af og til voru haldin kirkjuþing, þar sem saman komu biskupar og helstu trúspekingar samtímans, til að taka ákvarðanir um stefnur og strauma er fylgja skyldi. Smám saman fór þó biskupinn í Róm að auka völd sín og varð embætti hans smám saman að því, sem við í dag köllum páfa. Þetta sætti biskupinn í Konstantínópel (nú: Istanbúl) sig ekki við og klauf sig ásamt fleiri biskupsdæmum frá Vestur-kirkjunni og varð að því sem í dag er á íslensku kallað gríska- eða rússneska rétttrúnaðarkirkjan. Á 16. öldinni varð svo enn klofningur, þegar þeir, sem eru enn í dag kallaðir mótmælendur, mótmæltu valdi páfa og spillingu innan kirkjunnar og klufu sig frá henni í hinar ýmsu deildir, svo sem lúterstrú og kalvínista.
[breyta] Kristni í dag
Nú er Kristni fjölmennustu trúarbrögð heimsins, með um 2 milljarða fylgjenda. Rúmur helmingur þeirra telst til rómversk-kaþólsku kirkjunnar, 367 milljónir eru mótmælendur og 216 milljónir tilheyra grísku/rússnesku rétttrúnaðarkirkjunni. Kristnir búa flestir í Norður- og Suður-Ameríku, Evrópu og Ástralíu. Hlutfallslega eru kristnir mun færri í Asíu og Afríku en en í hinum álfunum, en þar eru þó margir kristnir og sum lönd al-kristin, svo sem Eþíópía, þar sem kristni hefur verið við lýði frá 330.
[breyta] Helstu gerðir Kristni
- Rómversk-kaþólska kirkjan
- Gríska/rússneska rétttrúnaðarkirkjan
- Biskupakirkjan (sem klauf sig frá Rómversk-kaþólsku kirkjunni, en skilgreinir sig ekki sem mótmælendur í guðfræðilegum skilningi)
- Mótmælendur
- Lúterstrú
- Kalvínistar
- Meþódistar
[breyta] Tenglar
- Gamla og Nýja Testamentið
- Þjóðkirkja Íslands
- Kaþólska kirkjan á Íslandi
- Rússneska rétttrúnaðarkirkjan á Íslandi
- Serbneska rétttrúnaðarkirkjan á Íslandi
- Eastern Christianity
- OrthodoxWiki
- Vefsíða Vatikansins, þar sem Páfastóll, æðsta yfirvald Rómversk-kaþólsku kirkjunnar hefur aðsetur.
- BelieversCafe.com, vefsíða um Kristni.
- WikiChristian, kristið Wiki
- Biblían með athugasemdum efasemdamanna