Indó-evrópsk tungumál
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Indó-evrópsk tungumál eru ætt 443 tungumála og mállýskna sem um þrír milljarðar manna tala. Þessari málaætt tilheyra flest tungumál Evrópu- og Vestur-Asíu, sem tilheyra sömu ættkvísl. Nútímamál sem tilheyra þessari ætt eru t.d. bengalska, enska, franska, þýska, hindí, persneska, portúgalska, rússneska og spænska (hvert með fleiri en 100 milljón málhafa).
[breyta] Ættkvíslir
- Anatólísk tungumál (elsta greinin, þekkt dæmi frá 18. öld f.Kr., þekktast er tungumál hittíta, hettitíska).
- Indó-írönsk tungumál (komin af sameiginlegri rót, frum-indó-írönsku).
- Indó-arísk tungumál (þar á meðal sanskrít, dæmi til frá 2. árþúsundi f.Kr.).
- Írönsk tungumál (dæmi frá 1000 f.Kr., hér á meðal avestanska og persneska).
- Gríska (brotakenndar heimildir á mýkensku frá 14. öld f.Kr.; Hómerskviður eru frá 8. öld f.Kr.).
- Ítalísk tungumál (þar á meðal latína og afkomendur hennar: rómönsku málin, frá 1. árþúsundi f.Kr.).
- Keltnesk tungumál (til eru gaulverskar áletranir frá 6. öld f.Kr.; forn-írskir textar eru frá 6. öld e.Kr.).
- Germönsk tungumál (þar á meðal íslenska; elstu rúnaristur frá því á 2. öld, en fyrstu heilu textarnir á gotnesku frá 4. öld).
- Armenska (elstu dæmi frá 5. öld).
- Tokkarísk tungumál (útdauð mál Tokkara, elstu dæmi frá því snemma á 6. öld).
- Baltó-slavnesk tungumál (þar sem margir telja þau komin af sameiginlegri rót, en aðrir telja þau jafn-óskyld og aðrar ættkvíslir indó-evrópskra mála).
- Slavnesk tungumál (elstu dæmi um kirkjuslavnesku frá 9. öld).
- Baltnesk tungumál (elstu dæmi frá 14. öld, en varðveita furðulega marga þætti úr frum-indó-evrópsku).
- Albanska (dæmi frá 16. öld; stungið hefur verið upp á tengslum við illyrísku, þrakversku og dakísku).
Auk þessara hefðbundnu tíu greina sem hér eru taldar eru nokkur útdauð tungumál sem lítið er vitað um.
- Illyrísk tungumál
- Venetíska
- Messapíska
- Frýgverska
- Paíóníska
- Þrakverska
- Dakíska
- Forn-makedónska
[breyta] Satem-mál og Kentum-mál
Indó-evrópskum tungumálum er oft skipt í satem-mál og kentum-mál eftir því hvernig uppgómmæltu hljóðin þróuðust. Hægt er að sjá muninn á því hvort fyrsta hljóðið í orðinu yfir „hundrað“ er með lokhljóð (t.d. latína: centum) eða önghljóð (t.d. hindí: satám). Almennt séð eru „austrænu“ málin (slavnesku og indó-írönsku málin) satem-mál, en „vestrænu“ málin (germönsku, ítölsku og keltnesku málin) eru kentum-mál. Satem-kentum mállýskumörkin skilja að annars náskyld mál eins og grísku (kentum) og armensku (satem).