Inkaveldið
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Inkaveldið var keisaraveldi indíána í Andesfjöllum, þar sem nú er Perú. Veldi Inka stóð frá tólftu öld og fram á þá sextándu. Íbúar keisaraveldisins kölluðu land sitt Tawantinsuyu (sem þýðir „land fjórðunganna“), og var það orðið meira en milljón ferkílómetrar að stærð á 15. öld og þá bjuggu þar meira en tíu milljónir íbúa. Veldinu var skipt í fernt; Chinchaysuyu (NV), Antisuyu (NA), Qontisuyu (SV), og Qollasuyu (SA), en í miðjunni var höfuðborgin Cusco, þaðan sem veldinu var stjórnað. Til að tengja saman landið byggðu þeir vegi og brýr, en Inkar áttu afbragðs verkfræðinga. Um vegina fóru hraðboðar sem ferðuðust allt að 250 km á dag með skilaboð. Þannig gat inkinn, sem var æðsti leiðtoginn og jafnframt dýrkaður sem guð, komið mikilvægum boðum sínum til íbúanna og þannig hjálpuðu hraðboðarnir við stjórnun landsins. Inkar notuðu mjög öflugan her til þess að ná undir sig landi og sigra óvini sína og inkinn hafði jafnframt óskorað vald til þess að gera hvað sem hann vildi.
Efnisyfirlit |
[breyta] Líferni
Inkar lifðu yfirleitt saman í smáþorpum en fáir bjuggu í borgum. Þorpin voru oft utan við borgirnar. Fjölskyldur lifðu nokkrar saman í hóp sem oft var stjórnað af leiðtoga; slíkur hópur kallaðist „ayllu“. Þeir lifðu á og stunduðu landbúnað og ræktuðu mest maís og korn auk kartaflna, paprika, bauna, krydda og jafnvel kókalaufs en Inkar trúðu að það væri gjöf guðanna. Þeir ræktuðu einnig kakóbaunir en þær voru vinsæl skiptimynt, en einungis ríkir höfuðsmenn máttu neyta kakós. Hver hópur eða ayllu stundaði sjálfsþurftarbúskap. Allir í hópnum unnu nema þeir allra yngstu og þeir allra elstu. Öll vinna var unnin með höndunum þar sem afar fá verkfæri þekktust og hjólið var þeim ókunnugt. hver hópur þurfti að borga 2/3 hluta í skatt. Hóparnir bjuggu í steinhúsum með stráþaki en húsgögn voru ókunn og því sátu Inkarnir og sváfu á gólfinu. Þeir klæddust svokallaðri voð eða kirtlum með margbreytilegu og fallegu munstri, en klæði greindu á milli stétta. Hver hópur gerði líka allskyns samninga að sjálfsdáðum, sá um vöruskipti og héldu oft uppi aga með eigin reglum.
[breyta] Gifting
Þegar stúlkur voru giftar þá voru þær teknar inn í nýja stétt og hóp maka hennar ásamt börnum hennar. En fjölskylda stúlkunnar erfði makanum land og stúlkan hélt áfram sambandi við sinn gamla hóp. Einnig gat maður orðið meðlimur annars hóps með því að biðja um aðild.
[breyta] Barnsburður
Nýfædd börn voru færð að næsta læk og þau skoluð. Síðan voru þau vafin ullarreifum og lögð í vandaðan, bundinn og fallega skreyttan tréstokk. Sumstaðar voru settar tvær fjalir og bundnar fastar við höfuð barnsins til að það yrði uppmjótt en það þótti fínt hjá sumum kynþáttum. Næsta dag var móðirin yfirleitt komin aftur á akurinn að vinna með barnið á bakinu í tréstokknum. Heima voru börnin geymd í grafinni holu með grindum þar til þau voru fimm ára. Hver hópur sá börnunum oft fyrir menntun, var þá elsti og vitrasti karlmaðurinn sem kenndi.
[breyta] Menntun
Menntun Inka er hægt að skipta í tvo meginflokka; annars vegar menntun yfirstétta og hins vegar menntun almennings, s.s. bænda, smiða og lægri stétta sem ekki höfðu aðgang að amautas.
[breyta] Menntun yfirstétta
Menntun yfirstétta fór þannig fram að ungum yfirstéttamönnum var kennt frá Amautas. Byrjað um þrettán ára aldurinn í Cusco í húsum þekkingar. Amautas notuðu þekkingu sína til að kenna hnútakerfið Quipu, svo og Inkasögu, stjórn og trú, auk munnlegra laga. Í þessum skóla var einnig æfð her- og líkamsþjálfun. Yfirstéttamenntuninni lauk yfirleitt um 19 ára aldurinn og var þá haldin sérstök athöfn og nemendunum færðar nærbrækur til sönnunar þess að þeir hefðu lokið þessu námi.
[breyta] Menntun almennings
Ungir lágstéttarmenn fóru ekki í formlegan skóla en þó var þeim yfirleitt kennt af þeim sem eldri voru í fjölskyldunni eða hópnum sem þeir tilheyrðu; var þeim kennt t.d. að smíða, höggva steina, byggja, verða sér út um kjöt og/eða veiða fisk. Jafnvel án yfirstéttarnáms þá voru það þessar stéttir sem lögðu flest alla vegina, byggðu hengibrýrnar og húsin. Inkar eru oft þekktir fyrir byggingastíl sinn sem er að miklu leyti lægri stéttunum að þakka.
[breyta] Trú
Inkar trúðu á náttúruna í öllu sínu veldi og guðina sem í henni bjuggu. Þeir dýrkuðu fjöllin og jörðina, vatnið og eldinn, dýrin og plönturnar. Trú þeirra byggðist á því að bera virðingu fyrir umhverfinu. Guðir þeirra voru margir, en meðal þeirra helstu voru sólguðinn Inti, kona hans - tunglgyðjan Mama Qiya - og þrumu- og veðraguðinn Ilyap'a. Einn almikilvægasti guðinn var þó Viracocha sem var ýmist talinn faðir Manco Capac eða faðir Intis sem var þá talinn faðir Manco Capacs. Hann var álitinn hafa kennt mönnum siðmenningu og gengdi svipuðu hlutverki meðal guðanna og keisarinn gerði meðal manna. Viracocha var talinn hafa komið upp úr Titicacavatni sem og sólin tunglið og ýmis önnur mikilvæg goðmögn, en þau minna mikilvægu voru oftast tengd við staði svo sem hella, fjöll eða uppsprettur. Þessir staðir voru kallaðir huaca og eru enn álitnir heilagir af afkomendum Inkanna í dag. Á þessum stöðum fóru fram mikilvægustu trúarathafnirnar, oft fórnir ýmiskonar. Meðal annars var fórnað lamadýrum, mag og jafnvel börnum. Sérstök prestastétt var til staðar til að framkvæma þessar athafnir. Inkarnir höfðu eins konar boðorð, líkt og kristnir menn í dag en þau voru: „Ekki stela“, „ekki ljúga“ og „vertu duglegur að vinna“ og fóru þeir oftast eftir þeim, annars áttu þeir það á hættu að vera sóttir til saka, í það minnsta fyrir þjófnað.
[breyta] Stjórnun
Inkaríkinu var stjórnað af keisara sem var jafnframt álitinn guð og dýrkaður sem slíkur. Eins og áður segir var ríki Inkanna skipt í fjórðunga (Chinchaysuyu (NV), Antisuyu (NA), Qontisuyu (SV), og Qollasuyu (SA).) og þeim var stjórnað af fjórðungskóngum. En völdum var þannig skipt að stjórnandinn, Sapa Inkinn, og konur hans, Coyas, höfðu öll meginvöld yfir Inkaveldinu. Næst komu æðstiprestur og yfirherforinginn, síðan komu fjórðungskóngarnir, venjulegu herforingjarnir, síðan musterisprestarnir arkítektarnir/verkfræðingarnir, embættismenn og herstjórnendur, þá komu listamenn, tónlistarmenn, höfuðsmenn í hernum, ritarar (quipucamayocs sem eru hnútabindarar, en Inkar skráðu allt niður í hnútum) og þar á eftir endurskoðendur Inkanna. Á botninum voru svo læknarnir, bændurnir, ayllu og óbreyttir hermenn.
[breyta] Byggingar og listir
[breyta] Arkítektar og smíði
Inkar áttu afbragðs arkitekta og/eða verkfræðinga. Voru sum hús og hof byggð úr svo vel höggnum steinum að ekki þurfti að nota lím og svo þétt lagðir að ekki var hægt að koma hnífsblaði á milli steinanna, og lágstéttarhús voru einnig vel múruð með hálmþaki (stráþaki). Inkar og verkfræðingar þeirra byggðu brýr, lögðu vegi yfir landið þvert og endilangt, og sagt er að vegir þessir hafi verið yfir 22.000 kílómetrar að lengd og vegakerfið hafi verið með því fullkomnasta í heiminum. Einn vegur lá frá Ekvador og þvert yfir Andesfjöllin alla leið að og alveg út yfir landamæri Chile við Perú og var það lengsti vegur sem hafði verið lagður í heiminum fyrir iðnbyltinguna.
[breyta] Listir og listamenn
Inkar voru frábærir gullsmiðir og ekki síðri silfursmiðir. Þeir sköpuðu fullt af skartgripum, styttum og leirkerum sem voru oft eftirlíkingar af mannshöfði. Flestar styttur Inka voru af guðum eða fólki. Þeir gerðu stórar gullstyttur skreyttar með steinum og stundum skeljum. Inkarnir gerðu einig grímur sem prestar báru við helgiathafnir við túlkun á guðunum, en grímur þessar voru oft mósaík og gerðar með skeljum eða steinum. Tónlist var spiluð á tímum Inka og notuðust Inkar við blásturshljóðfæri svipuð og trompet og ásláttarhljóðfæri lík bjöllum. Einnig voru þeir framarlega í textílhönunn en föt þeira voru vafin úr ull og gjarnan vel skreytt með mjög fallegum mynstrum.
[breyta] Saga
Eins og fyrr segir, þá stofnaði lítil þjóð, ríki undir stjórn Manco Capac. Mun síðar, árið 1438 e. Kr., undir stjórn Sapa Inkans Pachacuti, hófst mikil útþensla ríkisins. Á innan við hundrað árum náði veldi Inkanna yfir næstum öll Andesfjöll eða yfir rúmlega milljón ferkílómetra lands og drottnaði yfir rúmlega 10 milljón manns.
Á hátindinum brotnaði siðmenning Inka niður og féll í hendur gullþyrstra og gráðugra evrópskra landvinningamanna. Árið 1521 náði Hernán Cortés yfiráðum yfir Astekum og þau yfiráð veittu Francisco Pizarro innblástur til að gera árás á Inkana 10 árum síðar.
[breyta] Spænska innrásin
Þó að leiðangur Francisco Pizarro hafði ekki haft nema rétt undir 200 menn og 27 hesta þá ríkti borgarastyrjöld hjá Inkum og því átti Pizarro tiltölulega auðvelt með að brjóta niður lamaðan her Inkanna. Evrópubúar báru einnig með sér farsóttir sem indíánar þekktu ekki og höfðu engin mótefni gegn. Á leiðinni veittu ýmsir þjóðflokkar Pizarro oft fyrirsát og þurfti hann því oft að tala sig útúr vandræðunum. Hinir herirnir gátu auðveldlega tortímt her Pizarro en í staðinn fylgdu margir honum, líklegast vegna þess að hann hafði í raun mútað flestum og aðrir voru bara hreinlega á móti Inkunum. Her hans hafði vaxið með fylgdarliðinu og var nú í kringum 3.000 menn og mættu þeir nú Sapa Inkanum Atahualpa við Cajamarca. Fór svo að her Inka gertapaði og var höfuðborg Inkanna Cusco sigruð árið 1536. Líklegast töpuðu Inkarnir af því að þeir voru ekki vanir að berjast á móti fallbyssum og skotvopnum Spánverja þó aðeins um 130 hafi borið byssur og lásaboga þá hafa fallbyssurnar líklegast ekki verið fleiri en 4. Var her Inka lamaður gegn slíku afli og aðeins er hægt að gera sér í hugarlund hvað óvanur her Inka hafi hræðst byssuhvellina.
[breyta] Eftir spænsku innrásina
Undir stjórn Túpac Amaru hörfuðu Inkar til fjalla og gerðu oft árásir á Spánverja þaðan eða allt fram til 1572 þegar Túpac var hálshöggvinn og keisaraveldið leið endanlega undir lok. Spánverjarnir tóku þá til við að útrýma menningu og siðum Inkanna. Stórveldi Inkanna hefur verið ýmsum uppreisnarhópum á svæðinu innblástur í gegnum tíðina, t.d. í uppreisninni gegn Spánverjum 1780 undir forystu Túpac Amaru II og í nútímanum hafa skæruliðahreyfingar nefnt sig í höfuðið á Túpac.
[breyta] Heimildir
- Hin týnda borg Inkanna. Alfræði unga fólksins, Söguatlas. Veraldarsaga Vöku-Helgafells.
- Palmer, Martin. 2004. World Religions. Times Books, London.
- Greinin „Ayllu“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 13. desember 2005.
- Greinin „Inca empire“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 13. desember 2005.
- Greinin „Inca_education“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 15. desember 2005.
- www.crystalinks.com/incan.html
[breyta] Tengt efni
- Aztekar
- Landafundir Ameríku
- Mayar
- Perú
- Spænska innrásinn
- Suður-Ameríka