Enska
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Enska (English) | |
---|---|
Talað hvar: | Ástralía, Írland, Kanada, Nýja Sjáland, Stóra-Bretland, Bandaríkin og mörg fleiri |
Heimshluti: | aðallega Vestur-Evrópa, Norður-Ameríka og Eyjaálfa |
Fjöldi málhafa: | sem móðurmál: meira en 400 milljónir
sem annað mál: talið allt frá 350 milljónum til yfir 1 milljarð |
Sæti: | 4 |
Ætt: | Indóevrópskt Germanskt |
Opinber staða | |
Opinbert tungumál: | |
Stýrt af: | engum, en Oxford English Dictionary hefur mikil áhrif |
Tungumálakóðar | |
ISO 639-1: | en |
ISO 639-2: | eng |
SIL: | ENG |
Tungumál – Listi yfir tungumál | |
Þessi grein gæti innihaldið hljóðfræðitákn úr alþjóðlega hljóðstafrófinu í Unicode. |
Enska (enska: English; framburður.) er vesturgermanskt tungumál sem á rætur að rekja til fornlágþýsku og annarra náskyldra tungumála Engla og Saxa, sem námu fyrstir Germana land á Bretlandseyjum, en málið hefur orðið fyrir miklum áhrifum frá ýmsum öðrum málum, þá sér í lagi latínu, fornnorrænu, grísku, og keltneskum málum sem fyrir voru á eyjunum.
Enska er töluð víða í heiminum, og er opinbert mál á Englandi, Írlandi, Skotlandi, Wales, Nýja Sjálandi, Ástralíu, Suður-Afríku, Bandaríkjunum, Kanada og nokkrum öðrum löndum.
Þróunarsögu ensku er skipt í þrjú tímabil. Elst er fornenska (Old English), sem er einnig kölluð engilsaxneska eftir hinum germönsku Englum og Söxum sem réðu ríkjum á Englandi frá 5. öld og fram á víkingaöld. Miðenska (Middle English) var töluð eftir komu víkinga og fram að þeim tíma þegar prentsmiðjur urðu algengar. Eftir tilkomu prentsmiðjanna hefur verið talað það mál sem við þekkjum nú (nútímaenska).
[breyta] Dæmi um ensku
Fornenska er töluvert líkari íslensku en nútímaensku, eins og sjá má á þessu ljóðbroti úr Bjólfskviðu frá 8. öld:
- Ða se ellengæst earfoðlice
- þrage geþolode, se þe in þystrum bad,
- þæt he dogora gehwam dream gehyrde
- hludne in healle; þær wæs hearpan sweg,
- swutol sang scopes. Sægde se þe cuþe
- frumsceaft fira feorran reccan,
- cwæð þæt se Ælmihtiga eorðan worhte,
- wlitebeorhtne wang, swa wæter bebugeð,
- gesette sigehreþig sunnan ond monan
- Úr ljóðinu um óvættinn Grendel
Þegar þetta er borið saman við nýrri ensk verk má sjá hversu hratt enskan fjarlægist íslenskuna:
- Ich was in one sumere dale,
- in one suthe diyhele hale,
- iherde ich holde grete tale
- an hule and one niyhtingale.
- Úr „The Owl and the Nightingale“, skrifað c.a. 1260
Svo eru nútímaverkin öllu líkari því sem við þekkjum í dag. Þetta dæmi er eftir Jonathan Swift, sem þekktastur er fyrir að hafa skrifað Ferðir Gúllívers á 18. öld:
- I shall now therefore humbly propose my own thoughts, which I hope will not be liable to the least objection.
En ögn eldri dæmi um nútímaensku koma upp um fortíð málsins, eins og sést hér í broti úr Fönixinum og skjaldbökunni eftir William Shakespeare (c.a. 1586)
- Let the bird of lowdest lay,
- On the sole Arabian tree,
- Herauld sad and trumpet be:
- To whose sound, chast wings obay.
- But thou, shriking harbinger,
- Foule precurrer of the fiend,
- Augour of the fevers end,
- To this troupe come thou not neere.
[breyta] Notkun í nútímanum
Sökum mikillar útbreiðslu enskunnar og töluverðrar innbyrðis einangrunar mælanda þess, hafa orðið til margar mismunandi mállýskur sem hafa einkennandi raddblæ, framburð og orðaforða. Til dæmis eru til mörg orð í ástralskri ensku sem enginn í Kanada myndi nota í daglegu máli, og öfugt.
Til þess að sporna við þessari þróun hóf Oxford-háskóli útgáfu Oxford English Dictionary, sem talin er yfirgripsmesta nútíma enska orðabókin. Hún var fyrst gefin út árið 1884, en hefur síðan þá verið stækkuð mjög til þess að ná yfir allar helstu orðmyndir sem koma fyrir í málinu allt aftur til upphafs nútímaensku.