Privacy Policy Cookie Policy Terms and Conditions Flórens - Wikipedia, frjálsa alfræðiritið

Flórens

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Ponte Vecchio (gamla brúin) yfir Arnófljót þar sem áður voru búðir slátrara, en frá tímum Kosímós I aðsetur gullsmiða
Enlarge
Ponte Vecchio (gamla brúin) yfir Arnófljót þar sem áður voru búðir slátrara, en frá tímum Kosímós I aðsetur gullsmiða

Flórens (ítalska: Firenze) er sögufræg borg á Ítalíu og höfuðstaður Toskanahéraðs, auk þess að vera höfuðstaður samnefndrar sýslu. Á endurreisnartímanum var borgin borgríki og síðar höfuðborg hertogadæmisins Toskana. Hún er fræg fyrir að hafa alið marga helstu snillinga Endurreisnarinnar á sviði vísinda, heimspeki og lista, svo sem Leonardo da Vinci, Galileo Galilei, Michelangelo Buonarroti og Niccolò Machiavelli.

Borgin liggur á hásléttu rétt sunnan við Appenínafjöllin, við Arnófljót í frjósömum dal þar sem áður var mýri. Íbúafjöldi borgarinnar er um 350.000 og atvinnulíf byggir fyrst og fremst á verslun, framleiðsluiðnaði og ferðaþjónustu. Fótboltalið borgarinnar heitir Fiorentina og heimavöllur þess er íþróttavöllur borgarinnar, Campo di Marte. Í borginni er alþjóðaflugvöllur (IATA: FLR), almennt kallaður Peretola eftir hverfinu þar sem hann er, en formlega kenndur við landkönnuðinn Amerigo Vespucci.

Verndardýrlingur borgarinnar er Jóhannes skírari og er skírnarkirkja honum helguð fyrir framan dómkirkjuna, Santa Maria del Fiore, sem almennt er kölluð Il Duomo. Hátíð borgarinnar er því Jónsmessan og þá er efnt til veglegrar flugeldasýningar.

Kort sem sýnir staðsetningu Flórens á Ítalíu
Enlarge
Kort sem sýnir staðsetningu Flórens á Ítalíu

Efnisyfirlit

[breyta] Saga borgarinnar

[breyta] Rómversk nýlenda

Flórens var upphaflega stofnuð sem rómversk hermannanýlenda (Florentia), árið 59 f.Kr., í lítt heilsusamlegri mýri við Arnófljótið. Etrúski aðallinn bjó þá í þorpum á borð við Fiesole í hæðunum fyrir ofan borgina þar sem loftið var betra. Miðbær borgarinnar ber enn merki þeirrar reglulegu og hefðbundnu götumyndar sem einkenndi allar rómverskar borgir.

[breyta] Borgríkið

Á miðöldum var borgin um skeið hluti af veldi Býsans. Hún var varla nema smábær fram á 10. öld þegar hún tók að vaxa sem iðnaðar- og verslunarborg. Á síðmiðöldum var hún, líkt og aðrar borgir Ítalíu, svið átaka milli Gvelfa og Gíbellína. Í Flórens varð málstaður Gvelfa ofaná. Þeir voru „borgaralegri“ og studdu kirkjuna gegn keisaranum, en átök milli borgara og aðalsins áttu eftir að verða leiðarhnoða í stjórnmálasögu borgarinnar.

[breyta] Lýðveldistíminn og Endurreisnin

Horft yfir gamla miðbæinn frá Uffizi-safninu. Hægra megin sést í Il Duomo en vinstra megin er kirkjan Orsanmichele. Í miðjunni sést í hvolfþakið á grafhvelfingu Mediciættarinnar við San Lorenzo
Enlarge
Horft yfir gamla miðbæinn frá Uffizi-safninu. Hægra megin sést í Il Duomo en vinstra megin er kirkjan Orsanmichele. Í miðjunni sést í hvolfþakið á grafhvelfingu Mediciættarinnar við San Lorenzo

Árið 1252 kom borgin sér upp eigin gjaldmiðli, flórínunni, og skaust brátt upp fyrir helstu keppinauta sína, borgirnar Písa og Siena. Á 14. öld var borgin orðin blómleg iðnaðarborg þar sem gildi hinna ýmsu iðngreina kepptust um völd og áhrif. Stuttu eftir aldamótin 1300 var holræsum borgarinnar lokað og búið til kerfi þar sem áveita skolaði úrgangi um holræsin út í ána. Á svipuðum tíma, eða 1321, var komið á fót Studium Generale, eða háskóla þar sem Giovanni Boccaccio kenndi, meðal annarra. Þetta sama ár lést einn þekktasti sonur borgarinnar, Dante Alighieri, í útlegð í Ravenna.

Árið 1296 var hafist handa við að reisa stóra dómkirkju í takt við aukinn styrk borgarinnar. Hún var hönnuð af Arnolfo di Cambio og átti að verða stærsta dómkirkja heims. Bygging hennar gekk hægt og kirkjuskipið var fyrst tilbúið árið 1418. Þá var haldin samkeppni um hönnun hvolfþaksins þar sem Filippo Brunelleschi fór með sigur úr býtum. Bygging hvolfþaksins, sem er stærsta hvolfþak heims ef miðað er við byggingu án stoðkerfis eins og járnabindingar, tók átján ár, en kirkjan var vígð 25. mars 1436.

Svarti-dauði gekk yfir borgina árið 1348 og af áætluðum 80.000 manna íbúafjölda er ætlað að um 25.000 hafi lifað pláguna af. Brátt tóku sterkar fjölskyldur eins og Albiziættin, Strozziættin og Mediciættin að takast á um völdin innan borgarráðsins. Í þessari valdabaráttu beittu þær neti áhangenda og mútum, og mikil áhersla á ytri merki auðs og valds skapaði frjóan jarðveg fyrir listamenn. Mediciættin, sem hafði hagnast af fjármálastarfsemi, náði yfirhöndinni þegar Kosímó eldri varð leiðtogi lýðveldisins árið 1434.

Þegar sonarsonur Kosímós, Lorenzo „hinn mikilfenglegi“, varð leiðtogi borgarinnar, var Flórens í raun orðin að nokkurs konar ættarveldi. Lorenzo varð einn helsti verndari listamanna á borð við Leonardo da Vinci, Michelangelo og Sandro Botticelli. Ásakanir um spillingu og ólifnað leiddu til byltingar árið 1494 undir stjórn svartmunksins Girolamo Savonarola. Á þeim tíma hóf Machiavelli feril sinn sem opinber starfsmaður í þjónustu hins endurreista lýðveldis.

[breyta] Hertogadæmið

Stytta Giambologna af Kosímó I erkihertoga.
Enlarge
Stytta Giambologna af Kosímó I erkihertoga.

Mediciættin komst brátt aftur til valda og Savonarola var brenndur á báli á torginu fyrir framan stjórnarhöllina Palazzo Vecchio árið 1498. Margir fyrrum áhangendur fjölskyldunnar, eins og Michelangelo, voru óánægðir með endurkomu hennar og litu orðið á þá sem einræðisherra. Mediciættin var aftur rekin frá völdum árið 1527 og lýðveldið endurreist. Með stuðningi keisarans og páfa náði hún þó aftur völdum og var frá 1537 hertogar af Flórens, og frá 1569 stórhertogar í Toskana, sem var þeirra erfðaveldi næstu tvær aldirnar, eða þar til ættin dó út.

Fyrsti stórhertoginn, Kosímó I lét reisa hina miklu skrifstofubyggingu Uffizi (skrifstofurnar), eftir teikningum arkitektsins Giorgio Vasari. Vasari byggði einnig langan gang sem tengdi Palazzo Vecchio og Uffizi yfir Ponte Vecchio saman við Palazzo Pitti (sem var bústaður hertogans eftir að eiginkona hans Eleónóra af Tóledó keypti hana). Þannig gat Kosímó ferðast á milli án þess að þurfa að fara út á götu. Gangurinn hýsir stórt safn sjálfsmynda eftir ýmsa listamenn, að stofni til frá 17. öld.

Síðasti meðlimur ættarinnar, Anna María Lovísa af Medici, arfleiddi borgina að listaverkasafni fjölskyldunnar til þess að það myndi laða að ferðamenn.

[breyta] Yfirráð Austurríkis og sameining Ítalíu

Árið 1737 gekk hertogadæmið í arf til austurríska konungdæmisins og var hluti þess þar til sameining Ítalíu átti sér stað um miðja 19. öld. Toskana varð árið 1861 hluti af ítalska konungdæminu og Flórens tók árið 1865 við hlutverki höfuðborgar ríkisins af Tórínó þar til Róm varð höfuðborg fimm árum síðar.

Á 18. og 19. öld varð borgin vinsæll viðkomustaður ferðamanna og fastur liður í Grand Tour breskra og franskra aðalsmanna á slóðir klassískrar menningar. Listalíf blómstraði á kaffihúsum borgarinnar undir lok 19. aldar og í byrjun tuttugustu aldar varð fútúrisminn leiðandi stefna í myndlist og skáldskap, en hann gagnrýndi einkum borgirnar Flórens og Feneyjar sem „borgir fortíðarhyggjunnar“.

[breyta] Fasisminn og Heimsstyrjöldin síðari

Mússólíní komst til valda á Ítalíu árið 1922. Valdatíð hans einkenndist til að byrja með af umfangsmikilli endurnýjun borga eins og Flórens. Á þessum tíma var meðal annars reist lestarstöð borgarinnar Stazione Santa Maria Novella. Í stríðinu varð borgin fyrir loftárásum bandamanna og Þjóðverja sem eyðilögðu meðal annars allar brýr borgarinnar nema Ponte Vecchio, en hlífðu annars helstu byggingum. Borgin var hersetin af Þjóðverjum 1943 til 1944 og barist var hús úr húsi.

[breyta] Flóðið 1966

4. nóvember árið 1966 flæddi Arnófljót yfir bakka sína eftir tveggja daga stórrigningar og færði borgina í kaf. Fjöldi ómetanlegra listaverka grófust í braki og leðju en stór hópur sjálfboðaliða auk ítalska hersins vann mikið starf við björgun þeirra. Þessi atburður varð meðal annars til þess að borgin hefur verið miðstöð rannsókna og náms í forvörslu listaverka síðan.

[breyta] Borgarhverfin

Á 14. öld var borginni skipti í fjögur hverfi sem heita eftir höfuðkirkjum hvers borgarhluta: Santa Maria Novella, San Giovanni, Santa Croce og Santo Spirito. Með vexti borgarinnar hafa þessi hverfi þanist út, svo nú væri réttara að tala um þau sem borgarhluta. Augljóslega skiptist borgin nú í miklu fleiri hverfi og í daglegu tali er venja að tala um gömlu rómversku miðborgina (Centro Storico) sem sérstakt hverfi. Borgarmúrar Endurreisnartímans eru nú horfnir að mestu leyti og hraðbraut liggur í stað þeirra umhverfis miðborgina. Flest borgarhliðin eru þó enn standandi og hluti múranna á Oltrarno. Borgin hefur vaxið langt út frá hinni reglulegu hringlaga endurreisnarborg og fyllir út í dalverpin til norðvesturs og suðausturs.

[breyta] Centro Storico

Aðaldyr Palazzo Vecchio með Perseif í forgrunni og Davíð í bakgrunni.
Enlarge
Aðaldyr Palazzo Vecchio með Perseif í forgrunni og Davíð í bakgrunni.

Gamli rómverski miðbærinn er greinilegur á korti af borginni þar sem hann er reglulegur ferhyrningur og allar götur hans liggja beinar eftir höfuðáttunum. Eina sveigða gatan (via Torta) markar útlínur hringleikahússins, en að öðru leyti eru þar engar menjar um rómverskan uppruna. Á þessum litla bletti standa meðal annars Il Duomo (ásamt skírnarkirkjunni Battistero di San Giovanni og klukkuturninum), Palazzo Vecchio og kirkjurnar Orsanmichele og La Badia. Á torginu framan við Palazzo Vecchio (Piazza della Signoria) getur að líta meðal annars hinar frægu styttur Davíð eftir Michelangelo, Júdit og Hólófernes eftir Donatello og Perseif eftir Benvenuto Cellini. Venjan er að telja einnig árbakkann með ríkislistasafninu Gli Uffizi og Ponte Vecchio til miðbæjarins. Gríðarlegur fjöldi ferðamanna fer um þennan borgarhluta, eða um hálf milljón á viku á háannatíma.

[breyta] Santa Croce

Mynd af Santa Croce sem sýnir framhlið kirkjunnar og torgið. Klaustrið er sambyggt við kirkjuna hægra megin.
Enlarge
Mynd af Santa Croce sem sýnir framhlið kirkjunnar og torgið. Klaustrið er sambyggt við kirkjuna hægra megin.

Santa Croce er einn fjögurra hefðbundinna borgarhluta Flórens og inniheldur þannig hverfin Gavinana, Viale Europa og Galluzzo auk hluta Oltrarno og Santa Croce. Kirkjan er fransiskanakirkja og er enn í fullri notkun. Í kirkjunni er mikið af listaverkum eftir Giotto, Cimabue, Luca della Robbia og Donatello, meðal annarra. Kirkjan og klaustrið skemmdust mikið í flóðinu 1966. Nálægt kirkjunni er gamla fangelsið Il Bargello sem nú hýsir listaverkasafn borgarinnar. Aðrir athyglisverðir staðir í hverfinu eru t.d. Piazzale Michelangelo og kirkjan San Miniato „hinum megin“ við ána, auk vísindasögusafnsins þar sem hægt er að sjá mælitæki Galileos.

[breyta] Santo Spirito

Santo Spirito liggur að öllu leyti „hinum megin“ við ána og nær yfir, auk Santo Spirito, Isolotto, Legnaia, Soffiano og Ugniano. Þar er meðal annars hægt að skoða fræga myndröð Masaccios, sem margir telja upphafsmann þeirra vatnaskila sem urðu í málaralist á Endurreisnartímanum, í Brancacci-kapellunni í kirkjunni Santa Maria del Carmine. Á þessu svæði getur að líta heillegasta hluta gömlu borgarmúranna og virkið Belvedere.

[breyta] Santa Maria Novella

Santa Maria Novella nær einnig yfir hverfin Statuto, Rifredi, Careggi, Peretola, Novoli og Brozzi. Kirkjan er gömul dóminíkanakirkja og stendur við skeiðvöll borgarinnar, sem ekki er lengur í notkun. Rétt hjá kirkjunni er samnefnd lestarstöð. Nálægt lestarstöðinni er kirkjan San Lorenzo með sambyggðu grafhýsi Medicifjölskyldunnar og samnefndum markaði. Aðeins lengra frá, við via Cavour, stendur Medicihöllin. Langt utar, en þó í sama borgarhluta, er flugvöllurinn Peretola eða Vespucci-flugvöllur.

[breyta] San Giovanni

San Giovanni inniheldur einnig hverfin Campo di Marte, Le Cure, Coverciano og Bellariva. Í hverfinu eru kirkjurnar San Marco með freskum eftir Fra Angelico og Santissima Annunziata, og gamla munaðarleysingjahælið Spedale degli Innocenti með skreytingum eftir Luca della Robbia. Við sama torg og munaðarleysingjahælið stendur Akademían þar sem frumgerð Davíðs eftir Michelangelo stendur. Í Campo di Marte er íþróttavöllur borgarinnar og heimavöllur fótboltaliðsins Fiorentina. Þar er einnig önnur aðal lestarstöð borgarinnar.

[breyta] Hátíðir

  • Scoppio del carro (vagninn sprengdur) á sér stað á páskadag. Þá er skreyttur vagn dreginn um morguninn af sex hvítum akneytum (af chianinakyni) skreyttum blómakrönsum, um fjögur hverfi gömlu borgarinnar þar til hann staðnæmist fyrir framan dyr Il Duomo. Þar eru nautin leyst frá og vír festur milli vagnsins og háaltarisins inni í kirkjunni. Við lok messunnar er kveikt á flugeldi í líki dúfu við altarið sem skýst þá eftir vírnum út í vagninn þar sem hann kveikir í flugeldum sem búið er að koma þar fyrir.
  • San Giovanni (Jónsmessa) er höfuðhátíð borgarinnar, haldin 24. júní ár hvert. Þá er tilkomumikil flugeldasýning um kvöldið. Flugeldunum er skotið upp úr hlíðunum fyrir neðan Piazzale Michelangelo á Oltrarno, „hinum megin“ við ána.
  • Calcio Storico (sögulegur fótbolti) er íþróttamót í júní þar sem gömlu borgarhverfin fjögur keppa sín á milli á sandvelli sem komið er fyrir á torginu fyrir framan kirkjuna Santa Croce. Keppt er í litríkum búningum sem minna á klæðnað Endurreisnartímans og liðin ganga til vallarins í skrúðgöngu með fánakösturum. Leikurinn er nokkuð villimannslegur og gengur út á að koma bolta yfir línu á öðrum vallarhelmingnum með öllum tiltækum ráðum.

[breyta] Matargerð

Toskana er auðvitað frægt fyrir matargerð, en sagt er að frönsk matargerðarlist eigi upptök sín í því þegar Katrín af Medici giftist Hinriki II Frakkakonungi 1533 og flutti með sér flokk matsveina frá Flórens. Við borgina eru sérstaklega kenndir réttirnir trippa alla fiorentina (soðnar kýrvambir) og bistecca fiorentina (þverhandarþykk T-bein steik af chianina nauti, grilluð án krydds). Auk þess eru í borginni framleiddar margar gerðir san giovese víns og ólífuolíu.

[breyta] Tenglar

Wikimedia Commons merkið
Margmiðlunarefni tengt Flórens er að finna á Wikimedia Commons.
Þetta er úrvalsgrein
THIS WEB:

aa - ab - af - ak - als - am - an - ang - ar - arc - as - ast - av - ay - az - ba - bar - bat_smg - be - bg - bh - bi - bm - bn - bo - bpy - br - bs - bug - bxr - ca - cbk_zam - cdo - ce - ceb - ch - cho - chr - chy - closed_zh_tw - co - cr - cs - csb - cu - cv - cy - da - de - diq - dv - dz - ee - el - eml - en - eo - es - et - eu - fa - ff - fi - fiu_vro - fj - fo - fr - frp - fur - fy - ga - gd - gl - glk - gn - got - gu - gv - ha - haw - he - hi - ho - hr - hsb - ht - hu - hy - hz - ia - id - ie - ig - ii - ik - ilo - io - is - it - iu - ja - jbo - jv - ka - kg - ki - kj - kk - kl - km - kn - ko - kr - ks - ksh - ku - kv - kw - ky - la - lad - lb - lbe - lg - li - lij - lmo - ln - lo - lt - lv - map_bms - mg - mh - mi - mk - ml - mn - mo - mr - ms - mt - mus - my - mzn - na - nah - nap - nds - nds_nl - ne - new - ng - nl - nn - no - nov - nrm - nv - ny - oc - om - or - os - pa - pag - pam - pap - pdc - pi - pih - pl - pms - ps - pt - qu - rm - rmy - rn - ro - roa_rup - roa_tara - ru - ru_sib - rw - sa - sc - scn - sco - sd - se - searchcom - sg - sh - si - simple - sk - sl - sm - sn - so - sq - sr - ss - st - su - sv - sw - ta - te - test - tet - tg - th - ti - tk - tl - tlh - tn - to - tokipona - tpi - tr - ts - tt - tum - tw - ty - udm - ug - uk - ur - uz - ve - vec - vi - vls - vo - wa - war - wo - wuu - xal - xh - yi - yo - za - zea - zh - zh_classical - zh_min_nan - zh_yue - zu

Static Wikipedia 2008 (no images)

aa - ab - af - ak - als - am - an - ang - ar - arc - as - ast - av - ay - az - ba - bar - bat_smg - bcl - be - be_x_old - bg - bh - bi - bm - bn - bo - bpy - br - bs - bug - bxr - ca - cbk_zam - cdo - ce - ceb - ch - cho - chr - chy - co - cr - crh - cs - csb - cu - cv - cy - da - de - diq - dsb - dv - dz - ee - el - eml - en - eo - es - et - eu - ext - fa - ff - fi - fiu_vro - fj - fo - fr - frp - fur - fy - ga - gan - gd - gl - glk - gn - got - gu - gv - ha - hak - haw - he - hi - hif - ho - hr - hsb - ht - hu - hy - hz - ia - id - ie - ig - ii - ik - ilo - io - is - it - iu - ja - jbo - jv - ka - kaa - kab - kg - ki - kj - kk - kl - km - kn - ko - kr - ks - ksh - ku - kv - kw - ky - la - lad - lb - lbe - lg - li - lij - lmo - ln - lo - lt - lv - map_bms - mdf - mg - mh - mi - mk - ml - mn - mo - mr - mt - mus - my - myv - mzn - na - nah - nap - nds - nds_nl - ne - new - ng - nl - nn - no - nov - nrm - nv - ny - oc - om - or - os - pa - pag - pam - pap - pdc - pi - pih - pl - pms - ps - pt - qu - quality - rm - rmy - rn - ro - roa_rup - roa_tara - ru - rw - sa - sah - sc - scn - sco - sd - se - sg - sh - si - simple - sk - sl - sm - sn - so - sr - srn - ss - st - stq - su - sv - sw - szl - ta - te - tet - tg - th - ti - tk - tl - tlh - tn - to - tpi - tr - ts - tt - tum - tw - ty - udm - ug - uk - ur - uz - ve - vec - vi - vls - vo - wa - war - wo - wuu - xal - xh - yi - yo - za - zea - zh - zh_classical - zh_min_nan - zh_yue - zu -

Static Wikipedia 2007:

aa - ab - af - ak - als - am - an - ang - ar - arc - as - ast - av - ay - az - ba - bar - bat_smg - be - bg - bh - bi - bm - bn - bo - bpy - br - bs - bug - bxr - ca - cbk_zam - cdo - ce - ceb - ch - cho - chr - chy - closed_zh_tw - co - cr - cs - csb - cu - cv - cy - da - de - diq - dv - dz - ee - el - eml - en - eo - es - et - eu - fa - ff - fi - fiu_vro - fj - fo - fr - frp - fur - fy - ga - gd - gl - glk - gn - got - gu - gv - ha - haw - he - hi - ho - hr - hsb - ht - hu - hy - hz - ia - id - ie - ig - ii - ik - ilo - io - is - it - iu - ja - jbo - jv - ka - kg - ki - kj - kk - kl - km - kn - ko - kr - ks - ksh - ku - kv - kw - ky - la - lad - lb - lbe - lg - li - lij - lmo - ln - lo - lt - lv - map_bms - mg - mh - mi - mk - ml - mn - mo - mr - ms - mt - mus - my - mzn - na - nah - nap - nds - nds_nl - ne - new - ng - nl - nn - no - nov - nrm - nv - ny - oc - om - or - os - pa - pag - pam - pap - pdc - pi - pih - pl - pms - ps - pt - qu - rm - rmy - rn - ro - roa_rup - roa_tara - ru - ru_sib - rw - sa - sc - scn - sco - sd - se - searchcom - sg - sh - si - simple - sk - sl - sm - sn - so - sq - sr - ss - st - su - sv - sw - ta - te - test - tet - tg - th - ti - tk - tl - tlh - tn - to - tokipona - tpi - tr - ts - tt - tum - tw - ty - udm - ug - uk - ur - uz - ve - vec - vi - vls - vo - wa - war - wo - wuu - xal - xh - yi - yo - za - zea - zh - zh_classical - zh_min_nan - zh_yue - zu

Static Wikipedia 2006:

aa - ab - af - ak - als - am - an - ang - ar - arc - as - ast - av - ay - az - ba - bar - bat_smg - be - bg - bh - bi - bm - bn - bo - bpy - br - bs - bug - bxr - ca - cbk_zam - cdo - ce - ceb - ch - cho - chr - chy - closed_zh_tw - co - cr - cs - csb - cu - cv - cy - da - de - diq - dv - dz - ee - el - eml - en - eo - es - et - eu - fa - ff - fi - fiu_vro - fj - fo - fr - frp - fur - fy - ga - gd - gl - glk - gn - got - gu - gv - ha - haw - he - hi - ho - hr - hsb - ht - hu - hy - hz - ia - id - ie - ig - ii - ik - ilo - io - is - it - iu - ja - jbo - jv - ka - kg - ki - kj - kk - kl - km - kn - ko - kr - ks - ksh - ku - kv - kw - ky - la - lad - lb - lbe - lg - li - lij - lmo - ln - lo - lt - lv - map_bms - mg - mh - mi - mk - ml - mn - mo - mr - ms - mt - mus - my - mzn - na - nah - nap - nds - nds_nl - ne - new - ng - nl - nn - no - nov - nrm - nv - ny - oc - om - or - os - pa - pag - pam - pap - pdc - pi - pih - pl - pms - ps - pt - qu - rm - rmy - rn - ro - roa_rup - roa_tara - ru - ru_sib - rw - sa - sc - scn - sco - sd - se - searchcom - sg - sh - si - simple - sk - sl - sm - sn - so - sq - sr - ss - st - su - sv - sw - ta - te - test - tet - tg - th - ti - tk - tl - tlh - tn - to - tokipona - tpi - tr - ts - tt - tum - tw - ty - udm - ug - uk - ur - uz - ve - vec - vi - vls - vo - wa - war - wo - wuu - xal - xh - yi - yo - za - zea - zh - zh_classical - zh_min_nan - zh_yue - zu