Þjóðarmorðið í Rúanda
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Í þjóðarmorðinu í Rúanda var 800.000 manns, flestum af Tútsí ættbálki en einnig af Hútu ættbálki, bókstaflega slátrað af öfgamönnum Hútúa (Interahamwe) á 100 daga tímabili árið 1994.
Margir telja að þjóðarmorðið í Rúanda, skeri sig úr sagnfræðilega, ekki aðeins vegna þess gríðarlega fjölda fólks sem var myrt á örskömmum tíma, heldur einnig vegna viðbragða Vesturveldanna við atburðunum. Þrátt fyrir aðvaranir áður en morðaldan hófst og þrátt fyrir að heimspressan birti fréttir af því gengdarlausa ofbeldi sem átti sér stað, sá ekkert hinna stærri vesturvelda sér fært að blanda sér í málið. Á þessum tímapunkti neituðu Sameinuðu þjóðirnar að beita friðargæslusveitum sínum, sem staðsettar voru í Rúanda undir forystu hershöfðingjans Roméo Dallaire, og koma þannig í veg fyrir blóðbaðið.
Þessi viðbröð urðu brennidepill biturra ásakanna, sér í lagi á hendur stefnumarkandi einstaklingum eins og Jacques-Roger Booh-Booh en einnig á hendur Sameinuðu þjóðunum og landa eins og Frakklands og Bandaríkjanna, auk Bills Clinton Bandaríkjaforseta. Clinton fékk fréttir af ástandinu í Rúanda daglega frá helstu ráðgjöfum sínum og frá Bandaríska sendiráðinu í Rúanda. Aðrir hvöttu Clinton til að halda sig frá Rúanda vegna þess pólitíska ástands sem skapaðist ári fyrr, þegar misheppnuð tilraun var gerð til að veita hjálp í stríðsátökum í Mogadishu, höfuðborg Sómalíu.
Endir var loks bundinn á þjóðarmorðið þegar uppreisnarhreyfing Tútsa, þekkt undir heitinu "Rwandese Patriotic Front" eða RPF, leidd af Paul Kagame, steypti Hútú stjórninni af stóli og náði völdum í landinu. Í kjölfar þjóðarmorðsins var ýmsum refsiaðgerðum beitt gegn Hútúum og olli það flótta þúsunda manna inn í austurhluta Saír (sem nú kallast Lýðveldið Kongó). Hið gegndarlausa ofbeldi og þeir hrottafengnu atburðir sem áttu sér stað í Rúanda hafa enn áhrif á svæðið og þjóðarbrotin. Stríðsátökin í Kongó má rekja til þjóðarmorðsins í Rúanda, sem og áframhaldandi borgarastríð í Búrúndí.