William Shakespeare
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
William Shakespeare (26. apríl 1564 – 23. apríl 1616) var enskur leikari, leikskáld og ljóðskáld. Hann samdi um 38 leikrit, 154 sonnettur og önnur ljóð. Leikrit hans náðu töluverðum vinsældum meðan hann lifði og eftir að hann lést varð hann smám saman mikilvægari í samhengi bókmennta á ensku og nú á dögum er ekki óalgengt að hann sé kallaður mesti rithöfundur á enskri tungu fyrr og síðar.
Leikritunarferli Shakespeares er stundum skipt í þrjá meginhluta; fyrstu gamanleikina og sögulegu leikritin (t.d. Draumur á Jónsmessunótt og Hinrik IV, 1. hluti), miðtímabilið þegar hann skrifar flesta frægu harmleikina (eins og Óþelló, Makbeð, Hamlet og Lé konung) og seinni rómönsurnar (Vetrarævintýri og Ofviðrið). Mörg af leikritunum eru endurgerðir eldri leikrita líkt og þá tíðkaðist.