Þjóðabandalagið
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Þjóðabandalagið var alþjóðasamtök sem voru stofnuð á Friðarráðstefnunni í París 1919 í kjölfar fyrri heimsstyrjaldarinnar. Markmið samtakanna voru afvopnun og að koma í veg fyrir styrjaldir með samtryggingu, að leysa úr milliríkjadeilum með samningaviðræðum og að bæta velferð í heiminum. Sú stefna í alþjóðastjórnmálum sem lá á bak við bandalagið var gerólík þeirri sem ríkt hafði fram að því. Þjóðabandalagið bjó ekki yfir eigin her og treysti því á stórveldin til að tryggja framkvæmd ákvarðana bandalagsins. Síðari heimsstyrjöldin sýndi greinilega fram á að bandalaginu hefði mistekist að ná einu helsta markmiði sínu: að koma í veg fyrir stríð. Eftir heimsstyrjöldina tóku Sameinuðu þjóðirnar við af bandalaginu.
Hugmyndin um bandalag þjóða til að koma í veg fyrir stríð var tekin upp af Woodrow Wilson, Bandaríkjaforseta, sem átti stóran þátt í stofnun þess. Kveðið var á um stofnun bandalagsins í 1. hluta Versalasamningsins. Stofnskrá bandalagsins var upphaflega undirrituð af 44 ríkjum en 22 ríki gengu síðar í það. Vegna þeirrar einangrunarstefnu sem þá ríkti í öldungadeildinni tóku Bandaríkin ekki þátt.