Manntal
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Manntal er skrá yfir alla íbúa einhvers svæðis, svo sem sveitarfélags, hrepps, sýslu eða lands. Þau eru gjarnan notuð til mannfræði- og ættfræðirannsókna.
[breyta] Manntöl á Íslandi
Á Íslandi hafa verið tekin manntöl frá árinu 1703, en manntöl eru mikilvægar heimildir um sögu íslensku þjóðarinnar. Önnur mikilvæg manntöl voru gerð 1801, 1845 og 1865.
[breyta] Manntalið 1703
Fyrsta manntal sem gert var á Íslandi var fyrsta manntal sem náði til allra íbúa í heilu landi þar sem getið var nafns, aldurs og stöðu íbúanna í þjóðfélaginu. Ákvörðun um gerð manntalsins var líklega komin til af bágri efnahagsstöðu þjóðarinnar á 17. öld og þeim harðindum sem að ollu þeim. Árni Magnússon og Páll Vídalín (sem þá var varalögmaður)) voru valdir til þess að gera rannsókn á hag landsins og leggja til úrbótatillögur.
Starf þeirra fólst í að semja jarðabók, en það tók 12 ár (1702 — 1714). Erindisbréf Danakonungs til Árna og Páls dagsett 22. maí 1702 segir til um gerð manntalsins í 8. grein. Að auki skyldi gert fjártal. Í október 1702 voru send bréf frá Árna og Páli til allra sýslumanna þar sem gefin voru nákvæm fyrirmæli um töku manntalsins. Fyrirmælin voru töluvert nákvæmari en komu fram í erindisbréfinu þeirra, sem gefur til kynna að hugmyndin hafi þróast mjög í höndum fræðimannanna og hafi í rauninni orðið að manntali í þeirra höndum. Í uppkasti að erindisbréfi sem Árni Magnússon gerði vorið 1702 segir:
- „saa skall commissionen vere betenckt paa at samle et rigtig mandtall ofver alle familierne der i landet, fra beste til ringeste mand, hvorudi de skulle specificere og forklare hosbondens og hustruens nafn, deres börn, og frenders nafn som hos dem (sål.), item alle tieneste karle, tieneste drenge tieneste quinder og piger, in summa ingen undtagen store og smaa, unge og gamle, som i det helle land findes, hvorved dend store mengde af fattige ved hver sted nöie skal observeris og beskifves.“
Sýslumenn gáfu tilskipanir til hreppstjóra sem svo tóku manntalið. Hrepparnir voru þá 163 talsins og um 3-5 hreppstjórar voru í hvejrum hreppi. Þetta stangaðist þó á við tilmæli konungs, en konungur tilskipaði að prestar sæju um gerð manntalsins. Skýringin er sögð hafa legið í því að Árni og Páll hafi kosið að nota hina veraldlegu stjórnsýslu og fela sýslumönnum málið á Alþingi, og sýslumenn hafi ákveðið að deila svo verkefnunum niður á hreppanna, næsta stig stjórnsýslunnar.
Manntalið þótti mjög sérstakt, enda einsdæmi á sínum tíma, og almenningur í landinu kallaði veturinn 1702-1703 manntalsveturinn. Manntalið hefur varðveist úr öllum hreppum, en þó hefur frumritið glatast í sumum tilfellum.
Eftir að manntalinu var skilað á Alþingi í júní 1703 sendu Árni og Páll það til Kaupmannahafnar. Þar lá það að mestu óhreyft í 75 ár, en þá tók Skúli Magnússon landfógeti árið 1777 það til þess að vinna úr því jarðabók. Manntalið var flutt til Íslands aftur árið 1921 og samkvæmt samningi („Handritin heim“) milli Íslands og Danmerkur árið 1927 varð það eign Íslands.