Hrísey
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Hrísey er eyja á Eyjafirði norðanverðum skammt austan við Dalvík og heyrir undir Akureyrarkaupstað. Eyjan er sú næststærsta við Ísland á eftir Heimaey eða 8,0 km2 að flatarmáli. Eyjan er aflöng frá norðri til suðurs, rúmlega 7 km löng en 2,5 km breið. Hún er láglend, rís hæst 110 metra yfir sjávarmál, og er vel gróin.
Syðst á eyjunni er lítið þorp þar sem langflestir íbúar eyjunnar búa en þeir voru samtals 180 árið 2003. Ferjan Sævar gengur á milli Hríseyjar og Árskógssands nokkrum sinnum á dag og tekur ferðin um 15 mínútur hvora leið.
Í Hrísey er starfrækt einangrunarstöð á vegum landbúnaðarráðuneytisins fyrir dýr sem flutt eru inn til landsins svo tryggt sé að þau beri ekki með sér sjúkdóma til landsins.
Hrísey heyrði lengst af undir Árskógshrepp en var gerð að sérstökum hreppi, Hríseyjarhreppi, árið 1930. Hinn 1. ágúst 2004 sameinaðist Hríseyjarhreppur Akureyrarkaupstað að undangenginni atkvæðagreiðslu í báðum sveitarfélögunum 26. júní s.á.