Svoldarbardagi
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Svoldarbardagi var sjóorrusta háð í Eyrarsundi eða einhvers staðar í Eystrasalti í september árið 999 eða 1000. Ólafur Tryggvason, Noregskonungur, hafði verið í leiðangri til Vindlands og var á leið aftur heim til Noregs. Sveinn tjúguskegg, Danakonungur, Ólafur sænski, Svíakonungur, og Eiríkur Hákonarson, Hlaðajarl, sátu fyrir honum með ofurefli liðs. Konungasögurnar segja svo frá að Ólafur Tryggvason hafi aðeins haft 11 skip í bardaganum en andstæðingar hans höfðu að minnsta kosti 70. Skip hans voru hroðin eitt af öðru uns aðeins Ormurinn langi var eftir. Eftir harða atlögu unnu Eiríkur jarl og menn hans skipið og Ólafur kastaði sér í sjóinn.