Henrik Bjelke
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Henrik Bjelke, Hinrik Bjelke, Hinrik Bjálki (13. janúar 1615 – 16. mars 1683) var norskur aðalsmaður sem hófst til virðingar innan danska ríkisins þegar átök hófust milli Danakonungs og danska aðalsins um einveldið, en Bjelke studdi konung í því máli. Bjelke var fyrsti norsk-ættaði maðurinn til að fá sæti í danska ríkisráðinu 1660. Henrik Bjelke var ríkisaðmíráll í Svíastríðinu 1657 og vann þar sögufrægan sigur á Svíum í sjóorrustu við Moen. Bróðir hans Jørgen Bjelke vann auk þess til baka lönd sem Svíar höfðu tekið í Noregi.
[breyta] Æviágrip
Bjelke var sonur norska kanslarans Jens Bjelke og hélt ungur til náms og var skráður 1633 í háskólann í Padúa á Ítalíu. Nokkru síðar gerðist hann hirðmaður Friðriks af Óraníu. Hann sagði sig úr þjónustu Friðriks þegar hann frétti af innrás Lennarts Torstensons í Jótland 1644 og hélt til Danmerkur með liðssafnað. Í mars það ár sendi Kristján IV hann til Noregs með ofurstatign og átti hann að þjóna undir norska ríkisstjóranum Hannibal Sehested.
Eftir friðarsamningana í Brömsebro fékk hann leyfi konungs til að halda erlendis og var um skeið hjá Corfitz Ulfeldt í Hollandi en gekk síðan í þjónustu Peters Melander hershöfðingja keisarahersins í Vestfalíu. 1648 sneri hann aftur til Danmerkur, var gerður höfuðsmaður á Íslandi og síðan aðlaður sama ár.
Árið 1653 var hann gerður að skipherra og 1654 var hann sendur til Íslands gegn enskum sjóræningjum. Í Svíastríðinu vann hann, ásamt Niels Juel, frægan sigur á sænska flotanum undir stjórn Clas Bjelkenstjerna við Moen 12. september 1657. Hann tók við formennsku í flotaráðinu af Ove Gjedde árið 1660, fékk sæti í danska ríkisráðinu sama ár og var gerður að ríkisaðmírál 1662. Á sama tíma var hann samt í sambandi við Corfitz Ulfeldt og virðist hafa haldið vináttu við hann og Leonóru Kristínu eftir að þau komust í ónáð hjá Friðriki III. Hann virðist þó ekki hafa verið látinn gjalda þessa.
[breyta] Kópavogsfundurinn
Bjelke stýrði Kópavogsfundinum 1662 þegar Íslendingar undirrituðu erfðahyllinguna. Undirritunin var með þeim fyrirvara að engar breytingar yrðu á stjórnskipan landsins þar til eftir dauða Bjelkes, sem varð til þess að landinu var ekki skipaður stiftamtmaður fyrr en 1683.
[breyta] Heimildir
Fyrirrennari: Jens Søffrensen |
|
Eftirmaður: Stiftamtmaður tekur við. |