Fælni
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Fælni eða fóbía (af gríska orðinu yfir ótta, φόβος (fobos)) er kvíðaröskun sem lýsir sér í órökréttri hræðslu við tiltekið fyrirbæri.
Efnisyfirlit |
[breyta] Myndun
Nokkrar deilur hafa staðið um hvernig fælni myndast. Helstu hugmyndirnar eru fjórar, eða að fælni:
- verði til með skilyrðingu, svo sem klassískri skilyrðingu. Í þessu felst að það sem fælnin beinist að hafi í fortíðinni parast við eitthvað sem vekur með fólki ótta af náttúrunnar hendi (svo sem sársauka eða skerandi hljóð), og fari því að vekja sömu óttaviðbrögð.
- verði til með herminámi eða óbeinni skilyrðingu, þar sem fólk lærir að hræðast það sem aðrir hræðast.
- verði til með upplýsinganámi, þar sem upplýsingar um að eitthvað beri að varast eða sé hættulegt leiði til fælni sem beinist að því.
- sé annað hvort meðfædd, eða að hæfileikinn til að óttast sumt meira en annað sé meðfæddur.
[breyta] Flokkun
Í DSM-IV, flokkunarkerfi fyrir geðraskanir, er fælni flokkuð í þrjá undirflokka, eða víðáttufælni, félagsfælni og afmarkaða fælni. Afmörkuð fælni skiptist svo aftur í fernt, eða í dýrafælni, náttúrufælni, aðstæðubundna fælni og blóðfælni.
[breyta] Meðferð
Algengasta og áhrifaríkasta meðferðin við fælni er atferlismeðferð. Meðal aðferða sem notaðar eru í atferlismeðferð eru kerfisbundin ónæming, hermun (e. modeling) og flæði (e. flooding). Einnig er stundum notast við hugræna meðferð og lyfjameðferð.
Í kerfisbundinni ónæmingu er fólk látið búa til óttastigveldi, þar sem það raðar því sem það óttast frá því sem því vekur með því minnstan ótta og yfir í það sem vekur mestan. Fólk ímyndar sér svo hvert þrep í stigveldinu, eitt á eftir öðru, á meðan það slakar á. Slökunin parast því við það sem fólk óttaðist, og kemur því að lokum í staðinn fyrir kvíðann sem það vakti áður upp.
Í hermun þarf fólk að herma eftir þeirri hegðun meðferðaraðilans sem beinist að því sem óttast er. Til að mynda gæti meðferð við snákafælni falist í því að meðferðaraðilinn héldi á snáki, og bæði svo skjólstæðing sinn um að gera hið sama.
Í flæði er skjólstæðingurinn sífellt látinn horfast í augu við það sem hann óttast, þar til það hættir að vekja með honum kvíða. Dæmi um það er ef fólk með lofthræðslu þyrfti að standa á svölum á 8. hæð í blokk til lengri tíma. Þessi aðferð virkar yfirleitt hraðar en hinar tvær, en erfiðara er að fá skjólstæðinga til að gangast undir slíka meðferð. Til þess að gera flæði bærilegra fyrir skjólstæðinga hefur stundum verið notast við sýndarveruleikatækni, þar sem skjólstæðingurinn er látinn takast á við það sem hann óttast í sýndarheimi, en ekki í raunveruleikanum.
Kvíðastillandi lyf geta dregið úr kvíða og hræðslu hjá fólki með fælni, en áhrifin eru ekki langvarandi. Atferlismeðferð virðist aftur á móti hjálpa fólki að losna við fælni til frambúðar.