Carl von Linné
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Carl von Linné eða Carolus Linnaeus (23. maí 1707 – 10. janúar 1778) var sænskur grasafræðingur og læknir sem lagði grunninn að nútímaflokkunarfræði lífvera. Hann er líka álitinn einn af upphafsmönnum vistfræðinnar.
Hann lærði grasafræði við Háskólann í Lundi og varð sannfærður um að lykillinn að flokkun blóma lægi í fræflum og frævum þeirra. Um þetta skrifaði hann ritgerð sem fékk honum stöðu aðstoðarprófessors við háskólann. Hann fékk styrk til rannsókna í Lapplandi, sem þá var að miklu leyti ókannað, og ritaði eftir þá reynslu bókina Flora Lapponica sem kom út árið 1737.
Eftir þetta flutti Linné til Hollands þar sem Jan Frederik Gronovius sýndi honum drög sín að bók um flokkunarfræði, Systema Naturae. Í bókinni voru langar latneskar lýsingar sem notaðar voru á þeim tíma, svo sem „physalis amno ramosissime ramis angulosis glabris foliis dentoserratis“ styttar í tveggja nafna kerfi þar sem fyrra nafnið á við ættkvísl og það síðara á við tegund: Physalis angulata. Slíkt tveggja nafna kerfi hafði verið fyrst notað af Bauthin-bræðrum, Gaspar Bauthin og Johann Bauthin, 200 árum fyrr, en það var Linné sem gerði notkun þess almenna meðal líffræðinga.
Linné giftist 1739 og tveimur árum síðar fékk hann stöðu við læknisfræðideild Uppsalaháskóla, en skipti fljótlega yfir í stöðu innan grasafræðinnar. Hann hélt áfram vinnu sinni við flokkun lífvera og færði sig út í flokkun spendýra og steinda.
1757 var hann aðlaður af Adolf Friðrik Svíakonungi og tók upp nafnið „von Linné“. Faðir hans hét upphaflega Nils Ingemarsson en hafði tekið upp eftirnafnið Linnaeus (linditré) eftir ættaróðalinu Linnegård þar sem honum þótti það betur hæfa presti.