Sóknargjöld
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Sóknargjöld nefnast fjárframlög sem að íslenska ríkið útdeilir af innheimtum tekjuskatti til Þjóðkirkjusafnaða, skráðra trúfélaga og Háskólasjóðs. Gjaldið er greitt fyrir hvern einstakling sem náð hefur 16 ára aldri 31. desember árið fyrir gjaldár og er ráðstafað í samræmi við skráningu þeirra í trúfélög 1. desember árið fyrir gjaldár.
Fyrir þá einstaklinga sem eru skráðir í Þjóðkirkjuna rennur gjaldið til safnaðar viðkomandi miðað við lögheimili, til annarra trúfélaga fyrir meðlimi þeirra og í Háskólasjóð fyrir þá sem eru skráðir utan trúfélaga eða tilheyra óskráðum trúfélögum.
Lög nr. 91/1987 um sóknargjöld o.fl. eru grundvöllurinn undir útdeilingu sóknargjalda en þau eru nánari útlistun á fyrirmælum 64. greinar stjórnarskrárinnar þar sem segir m.a.:
- Öllum er frjálst að standa utan trúfélaga. Enginn er skyldur til að inna af hendi persónuleg gjöld til trúfélags sem hann á ekki aðild að.
- Nú er maður utan trúfélaga og greiðir hann þá til Háskóla Íslands gjöld þau sem honum hefði ella borið að greiða til trúfélags síns. Breyta má þessu með lögum.
[breyta] Upphæðir
Gjaldið er ákvarðað í lögum sem 400,24 kr. á hvern einstakling á mánuði árið 1997, síðan hækkar það á hverju ári í samræmi við hækkun á meðaltekjuskattstofni. Árið 2005 var gjaldið um 8500 kr. á mann á ári.
Í fjárlögum fyrir árið 2006 er gert ráð fyrir að ríkið greiði 1.891 milljón í sóknargjöld, langstærstur hluti þess rennur til Þjóðkirkjunnar eða í kringum 1,6 milljarðar sé miðað við skiptingu þjóðarinnar í trúfélög 1. desember 2004. Háskólasjóður fær í sinn hlut 108 milljónir samkvæmt sömu fjárlögum en fékk 75 milljónir 2001 samkvæmt bókhaldi háskólans.
[breyta] Heimildir
- „Árbók Háskóla Íslands 2002“. Sótt 29. desember 2005.
- „Fjárlög 2006 - lögbundin framlög 2006 (sóknargjöld til trúfélaga og framlagið í háskólasjóð er aðskilið þarna en lagt saman í greininni)“. Sótt 29. desember 2005.
- „Hagstofa Íslands - mannfjöldi eftir trúfélögum“. Sótt 29. desember 2005.
- „Kirkjan.is - Grundvöllur fjármála Þjóðkirkjunnar“. Sótt 29. desember 2005.
- „Lög um sóknargjöld o.fl. nr. 91/1987“. Sótt 29. desember 2005.