Peter Melander
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Peter Melander greifi af Holzappel (17. maí 1585 – 17. maí 1648) var hershöfðingi yfir sameinuðum her keisara hins heilaga rómverska keisaradæmis og kaþólska bandalagsins frá árinu 1647 þar til hann lést af sárum sínum í Ágsborg eftir orrustu gegn herjum Frakka og Svía, undir stjórn Carls Gustavs Wrangel og Turenne, nálægt Zusmarshausen.
Melander var af kalvínistafjölskyldu frá Hessen og hóf feril sinn í þjónustu Hollands. Síðar varð hann herforingi yfir her Vilhjálms V af Hesse-Cassel og vann sigra á herjum kaþólska bandalagsins 1634. 1640 lét hann af stjórn hersins, gekk í þjónustu keisarans og varð herforingi 1642. Í júlí 1647 tók hann við yfirstjórn keisarahersins af Matthias Gallas og hélt til Bæheims. Eftir að bæverski herinn yfirgaf hann vegna deilna milli hans og Gronsfelds herforingja í her kaþólska bandalagsins, sneri hann aftur í átt til Dónár þar sem hann mætti fransk-sænska hernum í orrustu þar sem hann særðist til ólífis.