Olíukreppan 1973
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Olíukreppan 1973 var orkukreppa á Vesturlöndum sem stóð frá 16. október 1973 og stóð til 17. mars 1974. Kreppan hafði varanleg áhrif á verð hráolíu um allan heim og hafði víðtækar afleiðingar. Ástæða kreppunnar var viðskiptabann með olíu sem arabísku olíuframleiðsluríkin, auk Egyptalands og Sýrlands, settu á Bandaríkin og vestur-evrópska bandamenn þeirra vegna stuðnings þessara ríkja við Ísrael í Jom Kippúr-stríðinu sem stóð yfir í október 1973.
Um svipað leyti höfðu ríkin í Samtökum olíuframleiðenda (OPEC) komið sér saman um verðsamráð til þess að stórhækka olíuverð eftir að samningaviðræður við „Systurnar sjö“ fóru út um þúfur fyrr í sama mánuði. Þetta leiddi samstundis til verðhækkana og verðbólgu um leið og framleiðsla minnkaði hjá þeim ríkjum sem urðu fyrir kreppunni. Þau ríki sem illa urðu úti brugðust við með gagnaðgerðum til að draga úr eftirspurn sinni eftir olíu frá þessum löndum. Til lengri tíma kom því olíukreppan verst niðri á olíuframleiðslulöndunum sjálfum og leiddi til hnignunar Samtaka olíuframleiðenda.