Lítri
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Lítri er lagarmálseining. Einn lítri jafngildir einum rúmdesimetra, 1l = 1dm³. Mælieiningin lítri er notuð fyrst og fremst til mælinga á vökvamagni, sem ekki er of mikið, en sé um mikið magn að ræða eru notaðar stærri rúmmálseiningar, eins og rúmmetrar .
Afleiddar einingar lítra eru með smækkunar- og stækkunarforskeytum þessar: millilítri, sentilítri, desilítri, (lítri), dekalítri, hektólítri, kílólítri. Í hverju skrefi er tíföld stækkun. Þannig eru 1000 millilítrar í einum lítra og 10000 sentilítrar í einum hektólítra, svo að dæmi séu tekin. Lítið vökvamagn eins og til dæmis fljótandi lyf er að jafnaði mælt í millilítrum. Áfengisskammtar eru mældir í sentilítrum (1 einfaldur = 3 sentilítrar). Við matargerð og bakstur er iðulega miðað við desilítra. Menn kaupa mjólk og bensín í lítratali og heitt vatn frá hitaveitu í lítrum á mínútu. Dekalítraeiningin sést nánast aldrei notuð og hektólítrar sjaldan. Kílólítra er heldur aldrei talað um, vegna þess að 1kl jafngildir 1 rúmmmetra (1kl = 1m³) og er þá frekar talað um rúmmetra í stað kílólítra.
Lítri tengist metrakerfinu samkvæmt skilgreiningu, en er ekki SI eining. Margar Evrópuþjóðir nota þetta lagarmál, nema helst Bretar. Þeir ásamt Bandaríkjamönnum nota lagarmálseiningar á borð við fluid ounce, pint, quarter, gallon osfrv., en munur er á þessum einingum á milli landa og eru bresku einingarnar stærri en þær bandarísku.