Kringlan (verslun)
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
- Þessi síða fjallar um verslunarmiðstöð, til að sjá grein um götuna Kringluna má sjá Kringlan (gata)
Kringlan var ein af fyrstu verslunarmiðstöðvunum sem byggðar voru á Íslandi, áður höfðu risið verslunarkjarnarnir, Austurver, Suðurver, Glæsibær og Grímsbær auk Skeifunnar. Áður hafði t.d. Kjörgarður við Laugaveg verið hannaður út frá innra sameiginlegu svæði, en Kringlan var samt sem áður fyrsta eiginlega verslunarmiðstöðin með innri göngugötu á tveimur hæðum og tugi verslana samankomna á einum stað. Kringlan opnaði árið 1987. Árið 1991 var Borgarkringlan opnuð, nokkurs konar „lítil Kringla“, minni verslunarmiðstöð milli Kringlunnar og Borgarleikhússins sem hýsti meðal annars Kringlubíó, Kringlukrána og margar gjafavöruverslanir. Árið 1997 voru síðan Kringlan og Borgarkringlan tengdar saman í eina byggingu með um 4000 m² millibyggingu.
Kringlan er stærsta verslunarmiðstöð Reykjavíkur og sú næst stærsta á Íslandi og eru þar starfræktar yfir 170 búðir, veitinga- og þjónustustaðir. Þar er allt frá bókasafni, fasteignasölu, kvikmynda- og leikhúsi, til vín- og fataverslana. Miðstöðin hefur vaxið mikið á síðari árum og hefur hún verið talin ógnun við Laugarveginn og aðra verslunarkjarna. Helsti keppinautur Kringlunar, er Smáralindin sem staðsett er í Smáranum í Kópavogi.