IPod
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
- Vegna tæknilegra takmarkana er titillinn á grein þessari rangur. Rétti titillinn er iPod.
iPod er lína tónlistarspilara sem eru hannaðir og markaðssettir af Apple Computer. iPodar bjóða einfalt notandaviðmót sem hannað er í kringum miðlægt skrunhjól (undantekning er þó iPod Shuffle). Megin-iPodinn geymir gögn á hörðum diski, en minni módelin, iPod Shuffle og iPod Nano, nota flash-minni. Eins og flestir stafrænir tónlistarspilarar geta iPodar einnig nýst sem gagnageymslutæki.
Eldri útgáfur af iPod sem ekki eru lengur framleiddar eru, meðal annars, tvær kynslóðir af iPod mini og fjórar kynslóðir af iPod í fullri stærð, sem allar höfðu svarthvíta skjái, nema sérstök fjórða kynslóðar iPod með litaskjá sem var seldur sem iPod Photo þar til að litaskjáir urðu að staðalbúnaði. Í maí 2006 samanstendur vörulínan af fimmta kynslóðar iPod, sem styður kvikmyndir, iPod nano (sem hefur litaskjá), og iPod shuffle. Allar útgáfurnar voru gefnar út árið 2005. iPod er í augnablikinu söluhæsti stafræni tónlistarspilarinn.
Gerðir hljóðskráa sem iPod styður eru mp3, aac/m4a, alac, wav og aiff. Vinsælar hljóðskráagerðir sem iPod styður ekki eru ogg og flac sem báðar eru gefnar út undir GNU leyfi. IPod spilar heldur ekki midi skrár. Fimmtu kynslóðar iPodar styðja að auki m4v og mp4 sem eru myndbandsskráagerðir.
Meðfylgjandi hugbúnaður til þess að hlaða tónlist, ljósmyndum og myndskeiðum inn á iPod heitir iTunes. Forritið er jafnframt notað til afspilunar á tölvu notandans, og varðveitir það heildaryfirsýn yfir tónlistarsafni hans. Hægt er að spila og afrita tónlist af geisladiskum. Apple gerir ráð fyrir að iPodar séu notaðir ásamt iTunes, en annar hugbúnaður hefur skotið upp kollinum til sömu verka, t.d. nefna ephpod fyrir Windows og gnupod og gtkpod fyrir frjáls stýrikerfi á borð við Linux. iTunes er ekki til fyrir önnur stýrikerfi en Windows og MacOS.
Íslenskt orð fyrir spilarann hefur ekki náð fótfestu en meðal annarra hafa orðin tónaskur og tóngeymir heyrst. Einnig stakk Árni Johnsen upp á orðinu tónhlaða í líkingu við orðið rafhlaða. Einnig hefur Morgunblaðið verið að nota orðið spilastokkur fyrir svona spilara.