Baugur Group
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Gerð: | Hlutafélag |
---|---|
Slagorð: | |
Stofndagur: | 1993 |
Staðsetning: | Reykjavík, Ísland |
Lykilmenn: | Jón Ásgeir Jóhannesson stjórnarformaður, Hreinn Loftsson, forstjóri |
Starfsemi: | Rekstur fyrirtækja |
Vefslóð: | www.baugurgroup.is |
Baugur Group er íslenskt fyrirtæki, fjárfestingarfélag, sem á og rekur matvælaverslanir auk þess að stunda verðbréfaviðskipti með hlutabréf í öðrum fyrirtækjum innanlands og erlendis. Það á í yfir 3700 verslunum víðsvegar í heiminum og starfa hjá því alls ríflega 70 þúsund manns.
Efnisyfirlit |
[breyta] Saga
Sögu Baugs má rekja til stofnunar fyrstu Bónus-verslunarinnar af feðgunum Jóhannesi Jónssyni og Jóni Ásgeiri Jóhannessyni árið 1989. Fyrirtækið óx fljótt og dafnaði og þremur árum seinna voru verslanir Bónus orðnar þrjár talsins, allar á höfuðborgarsvæðinu. Sama ár keyptu eigendur Hagkaupa helmingshlut í Bónus-verslununum. Ári seinna var stofnað nýtt fyrirtæki, Baugur, til þess að samhæfa innkaupin fyrir verslanirnar.
Árið 1994 hófst útrás Baugs þegar fyrirtækið opnaði verslun í Færeyjum. Vöxtur fyrirtækisins hélt áfram og á næstu árum yfirtók Baugur rekstur verslana Hagkaupa, Bónuss, Nýkaupa, Hraðkaupa, Vöruveltunnar, 10-11 og Útilífs, auk innkaupa- og dreifingarfélagsins Aðfanga. Jón Ásgeir Jóhannesson varð strax forstjóri hins sameinaða félags.
Á nýrri öld var nafninu breytt í Baugur Group. Eignarhaldsfélagið Mundur, sem er m.a. í eigu eigenda Baugs Group, gerði yfirtökutilboð í Baug Group. Á erlendri grundu eignaðist Baugur group leikfangaverslanakeðjuna Hamleys og einnig meirihluta í tískukeðjunni Oasis Stores og heilsuvörukeðjunni Julian Graves.
Árið 2003 eignaðist Baugur Group hluti í Frétt ehf., sem gefur út Fréttablaðið og DV, og fjölmiðlafyrirtækið Norðurljós sem á og rekur fjölmarga ljósvakamiðla. Næsta ár sameinuðust þessi fyrirtæki og átti Baugur Group þá 30% hlutafjár í því. Í kjölfarið spratt upp mikil umræða um eignarhald á fjölmiðlum (sjá fjölmiðlafrumvarpið).
Árið 2004 eignaðist Baugur Group eignast hluta í Magasin Du Nord, stórverslunarkeðju í Danmörku með langa sögu. Baugur Group reyndi áfram fyrir sér erlendis með kaupum á Big Food Group, Goldsmiths og MK One. Baugur kom einnig að kaupum Oasis á Karen Millen. Til þess að halda utan um fjárfestingar erlendis var stofnaður hlutabréfasjóðurin Ice Capital sem Baugur Group á meirihluta í.
Árið 2005 keypti Baugur Group raftækjaverslanakeðjuna Merlin, smásöluverslunarkeðjuna Mappin & Webb og te og kaffi félaginu Whittard of Chelsea. Auk þess eignaðist Baugur Group þriðjungshlut í danska fasteignafélaginu Keops og hluta í tískuvöruverslunarkeðjunni Jane Norman, fasteignafélaginu Nordicom A/S, FL Group og matvælafyrirtækinu Woodward Foodservice.