Bólu-Hjálmar
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Bólu-Hjálmar eða réttu nafni Hjálmar Jónsson (1796-1875) var fæddur á Hallandi í Eyjafirði. Hann var fyrst bóndi á Bakka í Öxnadal en síðan fluttist hann til Skagafjarðar og bjó þar á nokkrum bæjum og við einn þeirra, Bólu (Bólstaðargerði) í Blönduhlíð, var hann jafnan kenndur. Hann bjó við heldur þröngan kost seinni búskaparár sín og átti oft í erjum við nágranna sína. Hjálmar var listfengur og oddhagur og hafa varðveist eftir hann fagurlega útskornir gripir. Hann var og fljúgandi hagorður og myndvís í skáldskap sínum. Í ljóðum hans gætir gjarnan biturleika vegna slæmra kjara og ekki vandar hann samferðamönnum sínum alltaf kveðjurnar.
[breyta] Heimild
- Sýnisbók íslenskra bókmennta frá 1550 til 1900, Kristján Eiríksson tók saman, Reykjavík 2003.