Örfirisey
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Örfirisey (einnig þekkt sem Örfirsey og áður Örfærisey, Öffursey, Örfursey og Effirsey) er fyrrverandi eyja á Kollafirði sem nú hefur verið tengd við land og er hluti Reykjavíkur. Nafnið Örfirisey þýðir í raun það að hún er eyja sem hægt er að ganga út í þegar fjara er. Svo var einmitt áður fyrr og það var á þeim granda sem eyjan var fyrst fasttengd við land. Nú lítur hún þó frekar út eins og nes en eyja. Í Örfyrisey er eina olíubirgðastöð á Íslandi, en stefnt er að því að flytja hana þaðan. Áður fyrr var þar aðsetur kaupmanna. Færeyska ættarnafnið Effersöe er dregið af nafni Örfiriseyjar.
Fyrr á tímum var ræktað korn og veiddur selur í Örfirisey. Í Oddgeirsmáldaga frá árinu 1379 er kveðið á um að Jónskirkja í Vík eigi landsælding (eitt sáld, þ.e. um 100 kg útsæðiskorns) og selalátur í Örfirisey.