Valdimar atterdag
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Valdimar atterdag eða Valdimar IV (um 1320 – 24. október 1375) var valinn konungur Danmerkur af þýsku greifunum, eftir að Geirharður greifi hafði verið myrtur af Niels Ebbesen 1340, en hann hélt Danmörku sem tryggingu vegna skulda. Ákveðið var að ríki Valdimars skyldi ná yfir nyrsta hluta Jótlands og suðurmörk þess vera í Limafirði. Afganginn af Jótlandi fékk hann með að greiða 35 þúsund mörk silfurs og samþykkt var að greifarnir gæfu síðar upp Kalø, Horsens, Kolding og Ribe. Stórar landareignir fékk hann síðan þegar hann giftist Helvig dóttur Eiríks II hertoga af Slésvík.
1346 seldi Valdimar Eistland, sem hafði verið danskt frá 1219, til Þýsku riddaranna fyrir tíu þúsund mörk. Með lánum, harðri skattheimtu og pólitík náði hann að leysa út Sjáland. 1357 tókst Valdimar að vinna úrslitasigur á þýsku greifunum við Broberg á Fjóni og 1360 lagði hann Skán undir sig. Skánarmarkaðurinn með síld gaf honum miklar tekjur.
1361 lagði Valdimar Gotland undir sig eftir blóðugar orrustur, en lenti þá gegn Hansasambandinu og fékk sendar 77 stríðsyfirlýsingar frá Hansaborgunum. Hansasambandið reyndist Valdimar ofjarl og hann beið nokkra ósigra og missti í þeim eina eftirlifandi son sinn Kristófer. 1368 neyddist hann síðan til að flýja frá Danmörku og eyða ári í útlegð við hirð keisarans. 24. maí 1370 þurftu Danir að undirrita friðarsamkomulag í Stralsund og meðal annars láta Hansasambandinu eftir Skánarmarkaðinn í fimmtán ár og réttinn til að velja eftirmann Valdimars.
1371 sneri Valdimar aftur til Danmerkur.
[breyta] Eftirmæli
Viðurnefni Valdimars er úr lágþýsku, „Ter Tage“, og merkir „þvílíkir dagar“. Í Danmörku fékk hann viðurnefnið „hinn illi“ vegna skattheimtunnar, en hans er fyrst og fremst minnst sem konungsins sem sameinaði Danmörku í eitt ríki.
Fyrirrennari: Kristófer II |
|
Eftirmaður: Ólafur III |