Jól
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jól eru ein stærsta hátíð kristinna manna. Þeir halda þessa hátíð í minningu fæðingar Jesú, sonar Maríu meyjar. Í kristinni trú er Jesús sonur Guðs (Drottins), Kristur (hinn smurði), Messías, sem spámennirnir sögðu fyrir að koma myndi. Jól eru haldin um gjörvallan hinn kristna heim og víða annars staðar þar sem kristni er jafnvel í miklum minnihluta. Hátíðin er ekki á sama tíma alls staðar. Hjá mótmælendum og rómversk kaþólskum eru jól haldin á jóladag, þann 25. desember, og sumir þeirra hafa heilagt frá klukkan 18 á aðfangadag jóla, en það gera alls ekki allar kristnar þjóðir. Í austurkirkjunni (grísk kaþólsku og orþódox) eru jólin haldin um það bil hálfum mánuði síðar.
Uppruni jólahalds er rakinn til sólhvarfahátíða heiðinna manna, sem fögnuðu endurkomu sólarinnar sem lífgjafa. Kristnir menn ákvörðuðu að Jesú hefði fæðst um þetta leyti árs og settu jólin á svipaðan tíma og sólhvarfahátíðin var áður. Með því móti glötuðu menn ekki miðsvetrarhátíðinni þó að þeir skiptu um trú.