Mýrasýsla
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Mýrasýsla er sýsla á Vesturlandi sem nær frá Hvítá í Borgarfirði að Hítará. Sýslan er alls 3.270 km².
[breyta] Náttúrufar
Úti fyrir strönd Mýrasýslu eru ótal sker og er aðgrunnt að ströndinni. Mestur hluti sýslunnar er láglendur og kallast hann einu nafni Mýrar og ná þær allt inn að Norðurá og Gljúfurá meðfram Hvítá. Mýrarnar eru víða illar yfirferðar, með lágum klapparholtum inn á milli. Holt þessi eru mörg hver vaxin birkikjarri. Upp af Mýrunum ganga síðan dalir inn í hálendið; helstu dalir eru Hítardalur, Hraundalur með Langavatnsdal, Norðurárdalur og Þverárhlíð austust.
Mýrasýslan öll er gróðursæl og er gróðurlendið útbreiddast á Mýrum og eru afréttir grösugir einnig. Í Mýraeldum vorið 2006 skemmdist þónokkurt gróðurlendi en líklegt er talið að það muni ná sér á einhverjum áratugum.
[breyta] Stjórnsýsla
Mýrasýsla er lögsagnarumdæmi með Borgarfjarðarsýslu og hefur sýslumaður aðsetur sitt í Borgarnesi. Sveitarfélög innan Mýrasýslu eru tvö, Borgarbyggð og Hvítársíðuhreppur.
[breyta] Heimild
- Þorsteinn Jósepsson, Steindór Steindórsson og Páll Líndal. Landið þitt Ísland, L-R. Örn og Örlygur, 1982.