Fíkn
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Fíkn (addiction) eða ávanabinding er hugtak sem notað er yfir áráttu til að endurtaka skemmandi hegðun. Einstaklingur sem haldinn er fíkn er sagður vera fíkill (addict). Mörg lyf valda ástandi sem fela í sér aukna þörf til þess að fá meira af lyfinu, auka þol (tolerance) einstaklingsins fyrir því svo hann þarfnast hærri skammta, og valda sársauka, kvíða og óþægindum þegar töku lyfjanna er hætt. Þannig áhrif kallast fráhvarfseinkenni (withdrawal symptoms). Hugtakið fíkn er einnig notað yfir aðra hegðun sem felur eingöngu í sér sálfræðilega hegðun, s.s. fjárhættuspil eða fíkn í klám. Deilt er um hvort of mikið át teljist til fíknar. Einstaklingar sem breyta mataræði sínu skyndilega upplifa oft fráhvarfseinkenni og það kallar á spurninguna hvort efni í mat, s.s. sykur, geti valdið fíkn. Meðal þeirra lyfja sem valda fíkn eru: Áfengi, heróín, kókaín, kannabisefni, kódín og nikótín sem sumir telja það efni sem sumir telja mest vanabindandi efnið. Flest lyf hafa örvandi áhrif en sum hafa þó róandi áhrif. Einstök lyf hafa bæði róandi og örvandi áhrif. Fíkn er talin eitt helsta heilbrigðisvandamálið um allan heim enda ljóst að hegðun margra ræðst af fíkn þeirra auk þess sem fíklar koma víða við sögu í heilbrigðiskerfinu.
Almennt er gerður greinarmunur á líkamlegri og sálfræðilegri fíkn. Líkamleg fíkn leiðir til líkamlegra einkenna þegar neyslu er hætt og sálfræðileg fíkn til sálfræðilegra einkenna. Líkamleg áhrif efnis hefur í för með sér líkamlega vanlíðunartilfinningu þegar neyslu efnis er hætt. Sálfærðileg fíkn felur í sér vellíðunartiflinningu og þörf fyrir áframhaldandi neyslu til að forðast vanlíðunartilfinningu. Ekki er endilega víst að erfiðara sé að slökkva sálfræðilega fíkn en líkamlega.
Það hversu lengi það tekur einstakling að vera háður vímugjafa veltur bæði á vímugjafanum, það hve oft hans er neytt sem og einstaklingnum sjálfum. Sem dæmi segja sumir alkóhólistar að þeir hafi ánetjast áfengi við fyrsta sopann á meðan flest fólk getur drukkið áfengi í félgasskap annarra án þess að teljast vera fíklar.