Íslendingasögur
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Íslendingasögurnar eru ásamt konungasögum, þekktustu miðaldabókmenntir Íslendinga. Þær eru um fjörutíu talsins og mynda saman einn af sex flokkum fornsagna.
Efnisyfirlit |
[breyta] Ritunartími
Fyrstu Íslendingasögurnar voru að öllum líkindum ritaðar öðru hvoru megin við aldamótin 1200, en þær síðustu við lok sagnritunarskeiðsins undir 1350. Flestar voru þær þó líklega skrifaðar á 13. öld.
Skoðanir á aldri eru meðal annars tengdar hugmyndum um uppruna þeirra. Þrettánda öldin er upplausnartími þjóðveldisins og má sjá þess víða stað í sögunum að varað er við erlendu konungsvaldi og upplausn ætta.
Engin sagnanna er helguð höfundi og ekkert handrit er varðveitt sem gæti verið frumrit viðkomandi sögu. Þær eru því einungis varðveittar í eftirritum og allar án höfundarnafns.
[breyta] Uppruni sagnanna
Þrjár meginkenningar eru um uppruna sagnanna:
- Sagnfestukenningin, en fylgjendur hennar telja sögurnar vera sannorðar frásagnir sem gengið hafa frá manni til manns þangað til þær voru skrásettar.
- Bókfestukenningin, að sögurnar séu verk rithöfunda sem styðjast við munnmæli, ýmis rit og eigið ímyndunarafl.
- Formfestukenningin, að sögurnar séu verk rithöfunda en formföst munnmæli eru uppistaða í því sem þeir skrá. Þetta er eins konar málamiðlun milli hinna kenninganna tveggja, hún afneitar ekki höfundum en leggur jafnframt áherslu á arfsagnir. Formfestumenn greina sögurnar í sex meginþætti eða frásagnareiningar: 1) Kynning persóna; 2) Átök eða deilur; 3) Ris; 4) Hefnd; 5) Sættir; 6) Eftirmáli.
Af öðrum kenningum má nefna goðsagnakenninguna, en hún gerir ráð fyrir að sögurnar séu að stofni til goðsagnir eða mjög mótaðar af goðsagnatengdu efni er tengdist landnámi sem athöfn og stofnun ríkis. Einar Pálsson er upphafsmaður kenningarinnar.
[breyta] Efni og stíll
Íslendingasögurnar eru veraldlegar sögur. Þær fjalla um Íslendinga á tímabilinu frá landnámsöld til fyrri hluta 11. aldar og gerast að mestu á Íslandi.
Sögurnar einkennast af hlutlægum frásagnarstíl, höfundur tekur ekki beina afstöðu og tilfinningum persóna er ekki lýst (nema í bundnu máli í stöku tilvikum). Ef persónum er ekki lýst þegar þær eru kynntar til sögunnar lýsa þær sér helst sjálfar með verkum sínum og orðum. Annars geta persónulýsingar orðið æði fjölskrúðugar. Sögumaður leyfir almannaróm stundum að heyrast, og er það nánast eina tækið sem hann beitir til að stýra skoðunum lesenda, annað en val á sjónarhorni. Að öðru leyti lætur hann sem minnst á sér bera.
Textinn einkennist af mikilli notkun hliðskipaðra aðalsetninga. Stíllinn er því einfaldur og málsgreinar yfirleitt stuttar og hnitmiðaðar, auk þess sem jafnvægi skapast í frásögninni.
Mikið er um sviðsetningar og samtöl, sem eru allajafna stutt og einkennast af spakmælum. Tilsvör eru oft meitluð og engu er þar ofaukið.
Í mörgum sagnanna gefa fyrirboðar eða spásagnir til kynna óorðna atburði. Enginn má sköpum renna, allt er ákveðið fyrirfram og enginn getur flúið örlög sín.
[breyta] Samfélag
Samfélag Íslendingasagnanna er goðaveldið eins og það var á Íslandi fyrstu aldir eftir landám. Það er ættasamfélag þar sem goðorðið gengur í arf.
Brúðkaup eru til þess að efla karlmanninn og skapa honum ættartengsl sem nýst geta síðar meir.
Söguhetjurnar eru oftast höfðingjaættar þó það sé reyndar ekki algilt. Lægra settu fólki bregður fyrir til góðs eða ills, en oftast er það í aukahlutverki.
[breyta] Hetjur og manngildi
Það má skipta hetjum Íslendingasagnanna gróflega í tvo flokka. Ljósar hetjur og dökkar hetjur. Þó eru sumar persónur flóknari en svo að þær geti fallið í annan hvorn þessara flokka.
Ljósar hetjur eru ljósar yfirlitum, heiðarlegar og seinþreyttar til vandræða. Þær dragast nauðugar inn í átök til að koma í veg fyrir að skuggi falli á sæmd þeirra.
Dökkar hetjur eru dökkar yfirlitum og oft ófríðar eða beinlínis ljótar. Þær eiga í vandræðum með sjálfar sig og grípa oft til vopna að fyrra bragði. Þær leggja þannig fram drýgri skerf til að skapa sín eigin vandræði.
Karlmenn eru langoftast í aðalhlutverkum og sjónarhóllinn er þeirra. Konur hrinda þó oft atburðarás af stað, þær eru þrætuepli eða hvetja hetjurnar til stórræða.
[breyta] Íslendingasögurnar í stafrófsröð
- Bandamanna saga
- Bárðar saga Snæfellsáss
- Bjarnar saga Hítdælakappa
- Brennu-Njáls saga, Njáls saga eða Njála
- Droplaugarsona saga
- Egils saga
- Eiríks saga rauða
- Eyrbyggja saga
- Finnboga saga ramma
- Fljótsdæla saga
- Flóamanna saga
- Fóstbræðra saga
- Færeyinga saga
- Grettis saga
- Gísla saga Súrssonar
- Grænlendinga saga
- Grænlendinga þáttur
- Gull-Þóris saga
- Gunnars saga Keldugnúpsfífls
- Gunnlaugs saga ormstungu
- Hallfreðar saga vandræðaskálds
- Harðar saga og Hólmverja
- Hávarðar saga Ísfirðings
- Heiðarvíga saga
- Hrafnkels saga Freysgoða
- Hrana saga hrings
- Hænsna-Þóris saga
- Kjalnesinga saga
- Kormáks saga
- Króka-Refs saga
- Laxdæla saga
- Ljósvetninga saga
- Reykdæla saga og Víga-Skútu
- Svarfdæla saga
- Valla-Ljóts saga
- Vatnsdæla saga
- Víga-Glúms saga
- Víglundar saga
- Vopnfirðinga saga
- Þorsteins saga hvíta
- Þorsteins saga Síðu-Hallssonar
- Þórðar saga hreðu
[breyta] Krækjur
- Íslendinga sögur frá «Kulturformidlingen Norrøne Tekster og Kvad» í Noregi.
- Allar íslendingasögurnarístafrófsröð